Schumacher á toppinn

Schumacher á uppfærðum Mercedes í Barcelona í dag.
Schumacher á uppfærðum Mercedes í Barcelona í dag. reuters

Mercedesliðið hafði ástæðu til að fagna eftir reynsluakstur dagsins í Barcelona. Á uppfærðum bíl liðsins setti Michael Schumacher hraðasta hring dagsins og Nico Rosberg þann þriðja besta.

Með þessum uppfærslum er lokið endurbótum á bíl Mercedes fyrir fyrsta mót ársins, í Melbourne eftir hálfan mánuð. Schumacher naut sín vel og ók hringinn í Barcelona hálfri sekúndu hraðar en nokkur annar ökuþór hefur gert á æfingum þar  í vetur, þar til í dag.

Schumacher æfði akstur í morgun eins og um tímatöku væri að ræða og hið sama gerði Fernando Alonso hjá Ferrari, sem var rúmum þremur tíundu úr sekúndu lengur í förum en heimsmeistarinn fyrrverandi.

Vegna óhagstæðs veðurútlits fyrir morgundaginn vék Schumacher fyrir Rosberg seinni partinn svo sá síðarnefndi fengi smá reynslu af nýuppfærðum bílnum við ákjósanlegar aðstæður. 

Bestu hringjum í dag náðu flestir ökumenn er þeir æfðu tímatökur en eftir hádegi tóku langar aksturslotur við hjá flestum. Manna mest ók Alonso eða 141 hring.

Heikki Kovalainen hjá Lotus var skammt undan með 138 hringi sem bendir til að ending sé að verða góð í Lotusbílnum. Tók liðið í noktun í dag ýmsar uppfærslur sem ætlað er að bæta bílinn.

Langar lotur Rubens Barrichello hjá Williams vöktu athygli þar sem dekkin nýttust honum betur en mörgum. Hafði ferð bílsins minnkað um aðeins eina sekúndu á hring eftir 10-12 hringi. Er það mun betri útkoma en áður hefur sést á vetraræfingum liðanna. 

Lítið fór fyrir Red Bull í dag. Sebastian Vettel lét 63 hringi duga og ók aðallega í 5-6 hringja lotum. Lét hann eiga sig að sækjast eftir topphraða eins og fyrr í vikunni.

Williams hugðist skipta akstrinum milli ökumanna sinna en vegna nauðsynlegra mótorskipta náði Pastor Maldonado aðeins 11 hringjum í brautinni í lok dagsins. Mótorskipti bitnuðu einnig á McLaren.

Öll 12 lið formúlunnar voru viðstödd en nýr bíll Hispania, sem frumsýndur var í dag, komst ekki í brautina. Eigi var hægt að aka honum þar sem ekki voru allir íhlutar hans komnir til Barcelona frá bílsmiðjunni í Bretlandi. 

Á morgun er allra síðasti dagur reynsluaksturs fyrir keppnistíðina. Þar verður aðeins helmingur liðanna að störfum, McLaren, Williams, Ferrari, Hispania og Mercedes.

Niðurstaða akstursins í dag varð annars sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll Tími Bil Hri.
1. Michael Schumacher Mercedes 1:21.249 67
2. Fernando Alonso Ferrari 1:21.614 +0.365 141
3. Nico Rosberg Mercedes 1:21.788 +0.539 22
4. Nick Heidfeld Renault 1:22.073 +0.824 67
5. Rubens Barrichello Williams 1:22.233 +0.984 89
6. Kamui Kobayashi Sauber 1:22.315 +1.066 98
7. Jaime Alguersuari Toro Rosso 1:22.675 +1.426 72
8. Sebastian Vettel Red Bull 1:22.933 +1.684 64
9. Heikki Kovalainen Lotus 1:23.437 +2.188 138
10. Paul di Resta Force India 1:23.653 +2.404 42
11. Adrian Sutil Force India 1:23.921 +2.672 26
12. Pastor Maldonado Williams 1:24.108 +2.859 11
13. Jenson Button McLaren 1:25.837 +4.588 57
14. Jerome D'Ambrosio Virgin 1:27.375 +6.126 46
Button gat lítið ekið í dag vegna mótorskipta.
Button gat lítið ekið í dag vegna mótorskipta. reuters
Langar lotur Barrichello vöktu athygli.
Langar lotur Barrichello vöktu athygli. reuters
Alonso á leið til næstbesta tíma í dag, Schumacher fylgir …
Alonso á leið til næstbesta tíma í dag, Schumacher fylgir honum eftir. reuters
Liuzzi (l.t.h.) og Karthikeyan við nýja bílinn í Barcelona í …
Liuzzi (l.t.h.) og Karthikeyan við nýja bílinn í Barcelona í dag. Í hann vantaði enn hluti og því gátu þeir ekki ekið honum. reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert