Sebastian Vettel hjá Red Bull fór með sigur af hólmi í Istanbúl í Tyrklandi og vann þar með þriðja sigurinn á árinu í fjórum mótum og sinn 13. sigur á keppnisferlinum. Annar varð liðsfélagi hans Mark Webber eftir harða keppni við Fernando Alonso hjá Ferrari en þeir höfðu sætaskipti nokkrum sinnum.
Sigri Vettels var eiginlega aldrei ógnað þótt Alonso og Webber væru skammt undan og minnkuðu bilið er á leið. Með þessu hefur hann tekið afgerandi forystu í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.Og með sínum fyrsta tvöfalda sigri á árinu er Red Bull komið með 43 stiga forystu á McLaren, 148:105, í keppni bílsmiða. Í þriðja sæti er Ferrari með 65 stig.
Greinilegt er að endurbætur á Ferraribílnum fyrir mótið hafa skilað árangri því hann var mun öflugri en í mótunum til þessa. Hóf Alonso keppni í fimmta sæti og var lengi vel í öðru sæti, eða áður en hann varð að láta undan í spennandi taktískri rimmu við Webber. Er þetta í fyrsta sinn á árinu sem Ferrari á mann á verðlaunapalli.
Hörð keppni var um önnur sæti og miklar sviptingar í brautinni eins og í undanförnum mótum.
Nico Rosberg á Mercedes byrjaði vel og vann sig úr þriðja sæti upp í annað á fyrstu metrunum. Á fyrstu hringjunum missti hann bæði Webber og Alonso fram úr sér er þeir gátu beitt hreyfivængnum gegn honum. Og er að dekkjastoppum kom féll hann enn frekar niður á við, en vann sig upp á lokasprettinum aftur, komst upp á milli ökumanna McLaren aftur og varð fimmti.
Schumacher mistækur
Liðsfélagi hans Michael Schumacher sótti fulldjarft framan af og renndi sér ítrekað inn eða utan í aðra bíla. Varð m.a. að sækja sér nýjan framvæng eftir að hafa stangað Vitaly Petrov hjá Renault snemma í keppninni. Varð Schumacher tólfti og því utan stiga.
Kamui Kobayashi hjá Sauber útfærði þriggja stoppa keppnisáætlun með ágætum og vann sig úr 23. sæti í það tíunda.
Á sama tíma og Alonso stóð sig vel fór Felipe Massa stigalaus frá mótinu, þótt lengst af væri hann í baráttu um fjórða til sjöunda sæti. Um það getur hann kennt akstursmistökum rétt eftir þriðja stopp en þá rann hann út fyrir braut og missti nokkra miðjubíla fram úr sér sem áttu flestir eftir að stoppa og tafðist því mjög í förum.
Buemi seigur
Sebastien Buemi hjá Toro Rosso stóð sig einkar vel og ók úr 16. sæti á rásmarki og var kominn upp í það sjöunda er stutt var eftir. Brúkaði hann þriggja stoppa áætlun en gat ekki varist ökumönnum Renault sem stoppuðu einu sinni oftar og því á ferskari dekkjum í lokin.
Mesti slagurinn um sæti stóð milli ökumanna McLaren, Rosbergs, Massa og ökumanna Renault. Button freistaði þriggja stoppa áætlunar og varð fremstur þeirra sem það gerðu. Komst hann um tíma í forystu og var lengi fjórði á lokapsrettinum. Hamilton og Rosberg voru á mun ferskari dekkjum á lokasprettinum, drógu hann uppi og komust báðir fram úr.
Niðurstaðan var skemmtilegur kappakstur og spennandi um allt nema fyrsta sætið.