Jenson Button hjá McLaren var í þessu að vinna kanadíska kappaksturinn í Montreal. Annar varð Sebastian Vettel á Red Bull og liðsfélagi hans Mark Webber varð þriðji. Fjórar stundir liðu frá því ökumennirnir voru ræstir af stað þar til kappakstrinum lauk.
Button sótti mjög á síðustu hringina og vann sig fram úr hverjum ökumanninum á fætur öðrum uns aðeins Vettel var eftir. Minnkaði hann bilið milli þeirra jafnt og þétt og var það innan við sekúnda er lokahringurinn hófst og Button stóð því vel að vígi með hreyfivæng.
Ekki kom til þess að hann þyrfti á þeirri hjálp að halda til að komast fram úr því Vettel urðu á mistök á miðjum síðasta hringnum svo Button sigldi auðveldlega fram úr og vann kappaksturinn. Með því komst hann upp í annað sæti í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, hefur 101 stig en Vettel 161 og Webber 94.
Michael Schumacher á Mercedes var undir lokin í öðru sæti en féll niður í það fjórða á síðustu þremur hringjunum er Webber og síðar Button unnu sig fram úr.
Eftir er að koma í ljós hvort Button þurfi að sæta refsingu vegna samstuðs þeirra Lewis Hamilton á áttunda hring kappakstursins, þótt ólíklegt sé talið að svo verði.
Kappaksturinn í Montreal á engar hliðstæður. Vegna úrhellis var öryggisbíll í brautinni sem svarar tæplega helming vegalengdarinnar og eftir 45 mínútna keppni var hún stöðvuð vegna skýfalls og of djúps vatns á brautunum. Liðu tvær klukkustundir og fjórar mínútur frá því kappaksturinn var ræstur á ný.
Og aftur fór öryggisbíllinn fyrir fyrstu 10 hringina, en kappaksturinn hófst einnig með hann í fylkingarbrjósti. Fyrir stoppið hafði hann auk þess verið sendur tvisvar út í brautina vegna óhappa og var einnig sendur síðar.
Til marks um ringulreiðina í Montreal var öryggisbíllinn sendur alls fimm sinnum út í brautina og þrátt fyrir refsingu og tvenn óhöpp á leiðinni ók Button til sigurs. Í kappakstri sem Vettel hafði þar til örfáar beygjur voru eftir virst hafa í hendi sér.