Lewis Hamilton hjá McLaren var hart gagnrýndur fyrir framgang sinn í Mónakó fyrir hálfum mánuði og þar sat hann uppi með tvær refsingar fyrir hættulegan akstur og fyrir að hafa valdið óþarfa árekstrum. Nú er hann gagnrýndur í Montreal.
Þó kappakstrinum í Montreal sé ólokið - enn er hlé vegna úrhellis - hafa málsmetandi menn stigið fram á netinu og beint spjótum sínum að Hamilton fyrir framferði hans fyrstu átta hringina í kanadíska kappakstrinum.
Niki Lauda, heimsmeistarinn fyrrverandi og formúluskýrandi hjá þýsku sjónvarpsstöðinni RTL, segir Hamilton hættulegan á brautinni og dæma beri hann í bann. Varar hann við því að verði ekkert að gert geti það endað með banaslysi.
Tvö atvik í Montreal gengu fram af Lauda og urðu tilefni ummæla hans. Annars vegar samstuð Hamiltons við Mark Webber hjá Red Bull og hins vegar samstuð hans við liðsfélaga sinn, Jenson Button, sem endaði með því að Hamilton skall á öryggisvegg og féll úr leik.
„Hamilton gekk alltof langt, út fyrir allt velsæmi. Hann er snaróður. Refsi FIA (Alþjóða akstursíþróttasambandið) honum ekki þá er mér öllum lokið. Á einhverju stigi verður að stöðva vitleysuna. Það er ekki hægt að aka svona - því það mun enda með því að einhver týnir lífinu,“ sagði Lauda á RTL-stöðinni.
Aðeins nokkrum klukkustundum fyrir keppni sagði annar fyrrverandi heimsmeistari, Emerson Fittipaldi hinn brasilíski, að Hamilton þyrfti að hemja sókndirfsku sína. Fittipaldi er meðal eftirlitsdómara FIA í Montreal.