Jenson Button er ósammála þeim sem krefjast þess að liðsfélagi hans Lewis Hamilton verði dæmdur í bann eða refsað hart fyrir of mikla árásargirni í keppni.
Hamilton hefur hvað eftir annað verið refsað í mótum í ár fyrir atvik sem talin voru hættuleg og afstýranleg. Í Montreal í fyrradag féll hann úr leik á áttunda hring vegna áreksturs við Button en áður hafði hann rekist utan í Mark Webber og snarsnúið bíl hans.
Í útsendingu þýsku sjónvarpsstöðvarinnar RTL sagði Niki Lauda, fyrrverandi heimsmeistari, Hamilton „snarbrjálaðan“ í brautinni, eftir atvikin tvö í Montreal.
Button er á því að gagnrýnin sé yfirdrifin. „Ég er ósammála því sem Niki segir. Akstursstíll Lewis er mjög sækinn og hann leitar alltaf inn í glufur. Stundum er það rétt, stundum ekki. Hið sama gildir um okkur alla,“ hefur breska fréttastofan Press Association eftir Button.
Hann játar að Hamilton komi oftar við sögu akstursatvika en aðrir ökumenn, en segist standa á því fótum fastar, að liðsfélagi sinn sé hvorki glanni né óíþróttalegur, heldur einungis gallharður keppnismaður.
„Lewis er mikið í fréttum, heilmikið af því er vegna þess að hann er djöfulli góður,“ sagði Button. „Hann er keppnisnagli, bardagamaður. Það er ástæða þess að ég vildi vera í þessu liði. Með og í keppni við ofurhæfileikaríkan ökumann, einn þann besta sem komið hefur við sögu formúlu-1.
Það er gott að kljást við hann á brautinni. Við berum heilmikla virðingu hvor fyrir hinum, við höfum keppt heilmikið innbyrðis í ár og í fyrra, en þangað til í Montreal hafa bílar okkar aldrei rekist saman. Við höfum alltaf veitt olnbogarými. Það er frábært að vera í þessari stöðu,“ sagði Button einnig.
Þeir Hamilton ræddu um samstuðið eftir að keppnin var stöðvuð og segir Button engu köldu anda milli þeirra.