Mark Webber hjá Red Bull hefur keppni af ráspól í breska kappakstrinum í Silverstone á morgun. Annar í tímatökunum varð félagi hans Sebastian Vettel og þriðji Fernando Alonso á Ferrari.
Webber vann breska kappaksturinn fyrir ári og hefur eflaust í hyggju að endurtaka það. Nær allir ökumennirnir settu sína bestu tíma í byrjun lokalotunnar því þegar þeir hugðust gera aðra atlögu að tíma runnu þau áform út í sandinn þar sem hann hóf að rigna.
Helst virðist sem ökumenn Ferrari geti ógnað keppinautunum hjá Red Bull þar sem Alonso og Felipe Massa deila annarri rásröðinni, urðu næstir á eftir Webber og Vettel.
Útlitið er annað en heimaliðið McLaren vænti þar sem Jenson Button varð einungis fimmti og Lewis Hamilton tíundi.
Skotinn Paul di Resta hjá Force India telur Silverstone til heimavallar og hann náði þeim ótrúlega árangri að krækja í sjötta rásstaðinn.
Nýliðinn Pastor Maldonado hjá Williams skein einnig í sólarleysinu í Silverstone með sjöunda rásstaðnum. Hefur hann keppni sæti framar en Kamui Kobayashi hjá Sauber.
Framgangur þessara þriggja varð meðal annars á kostnað Michaels Schumacher hjá Mercedes sem náði einungis þrettánda sæti. Hefur hann keppni fjórum sætum aftar en liðsfélaginn Nico Rosberg.
Heikki Kovalainen hjá Lotus er sjaldséður gestur í annarri lotu tímatöku en þeim árangri náði hann þó í dag. Þangað kominn mátti hann ekki við margnum að lokum.
Athygli vekur einnig, að hvorugur Renaultinn komst í lokalotuna. Niðurstaða tímatökunnar - og þar með rásröðkappakstursins á morgun - varð annars sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Tími | Bil |
---|---|---|---|---|
1. | Mark Webber | Red Bull | 1:30.399 | |
2. | Sebastian Vettel | Red Bull | 1:30.431 | +0.032 |
3. | Fernando Alonso | Ferrari | 1:30.516 | +0.117 |
4. | Felipe Massa | Ferrari | 1:31.124 | +0.725 |
5. | Jenson Button | McLaren | 1:31.989 | +1.590 |
6. | Paul di Resta | Force India | 1:31.929 | +1.530 |
7. | Pastor Maldonado | Williams | 1:31.933 | +1.534 |
8. | Kamui Kobayashi | Sauber | 1:32.128 | +1.729 |
9. | Nico Rosberg | Mercedes | 1:32.209 | +1.810 |
10. | Lewis Hamilton | McLaren | 1:32.376 | +1.977 |
11. | Adrian Sutil | Force India | 1:32.617 | +0.977 |
12. | Sergio Perez | Sauber | 1:32.624 | +0.984 |
13. | Michael Schumacher | Mercedes | 1:32.656 | +1.016 |
14. | Vitaly Petrov | Renault | 1:32.734 | +1.094 |
15. | Rubens Barrichello | Williams | 1:33.119 | +1.479 |
16. | Nick Heidfeld | Renault | 1:33.805 | +2.165 |
17. | Heikki Kovalainen | Lotus | 1:34.821 | +3.181 |
18. | Jaime Alguersuari | Toro Rosso | 1:35.245 | +2.575 |
19. | Sebastien Buemi | Toro Rosso | 1:35.749 | +3.079 |
20. | Timo Glock | Virgin | 1:36.203 | +3.533 |
21. | Jarno Trulli | Lotus | 1:36.456 | +3.786 |
22. | Jerome D'Ambrosio | Virgin | 1:37.154 | +4.484 |
23. | Tonio Liuzzi | Hispania | 1:37.484 | +4.814 |
24. | Daniel Ricciardo | Hispania | 1:38.059 | +5.389 |
107% tími: | 1:39.156 |