Red Bull stjórinn Christian Horner áformar að setjast niður með ökuþórnum Mark Webber bakvið luktar dyr og gera upp ágreining þeirra vegna liðsfyrirmæla sem Webber var beittur í Silverstone í gær.
Webber hundsaði fyrirmælin og fór ekki dult með óánægju sína í garð liðsstjóranna eftir kappaksturinn. Horner er argur og er búist við að fundur þeirra verði eitthvað allt annað en dægilegt kaffispjall.
Webber sagðist hafa virt tilmælin að vettugi því hann hafi viljað vinna sæti af liðsfélaga sínum Sebastian Vettel og keppa við hann alveg þar til köflótta flaggið félli.
Horner kvaðst undrandi og sagðist ekki hafa átt von á því hvernig hann brást við fyrirmælunum. Sagðist hann afar óhress með að Webber skyldi hafa tekið þá áhættu að svipta liðið stigum með hugsanlegu samstuði. Það hafi verið augljóst að hvorugur þeirra ætlaði að gefa eftir.
„Þegar upp er staðið er liðið aðal málið og enginn einstaklingur er meiri en liðið. Ég get skilið svekkelsi Marks en hefði röð þeirra verið á hinn veginn hefðum við gert nákvæmlega eins,“ sagði Horner.
Spurður hver yrðu viðbrögð hans vegna málsins svaraði Horner: „Það er nokkuð sem við tveir munum gera upp á einkafundi.“