Ferraristjórinn Luca di Montezemolo hefur staðfest, að Felipe Massa keppi fyrir Ferrari á næsta ári, 2012. Verður því engin breyting á ökuþóraskipan liðsins í bráð.
„Miklar lausafregnir hafa verið á kreiki undanfarið, en mér er það sönn ánægja að segja að ég er mjög ánægður með árangur [ökumannanna] beggja. Silverstone var ný byrjun hjá okkur,“ segir Montezemolo við ítalskt íþróttadagblað í dag.
Sigur Fernando Alonso í Silverstone var eins og vítamínssprauta fyrir liðið og lyfti liðsandanum hátt. „Þessi sigur kom á réttu augnabliki. Sú staðreynd að fyrsti sigurinn í ár skyldi eiga sér stað í Silverstone, í sömu braut og í sama mánuði sem Ferrari vann sinn fyrsta formúlusigur árið 1951, sýnir styrk liðsins. Ferrari lifir enn og rauður bíll hefur alltaf verið á rásmarkinu í hverjum einasta kappakstri undanfarin 60 ár,“ segir Montezemolo.