Herfræði Hamiltons best

Hamilton fagnar sigri í Nürburgring.
Hamilton fagnar sigri í Nürburgring. reuters

Lewis Hamilton hjá McLaren vann þýska kappaksturinn eftir spennandi einvígi við Fernando Alonso hjá Ferrari og Mark Webber hjá Red Bull. Skiptust þeir oft á forystu en fyrst og fremst í tengslum við dekkjaskipti en þar reyndist herfræði Hamiltons árangursríkust.

Þetta er annar mótssigur Hamiltons á árinu og sá 16. á ferlinum. Í ræsingunni skaust hann fram úr ráspólshafanum Webber og sigraði með afar vel útfærðum akstri. Alonso komst rétt fram úr honum í forystu í þriðja dekkjastoppi en á ísköldum dekkjum gat hann ekki varist og missti fyrsta sætið strax í fyrstu beygju.

Mjótt var á munum alla tíð milli þessara þriggja og freistaði Webber að bíða eins lengi og hægt var - fram í 56. hring af 60 - til að skipa yfir á hörðu dekkin í þeirri von að vinna sig fram úr Alonso og Hamilton. Það gekk ekki upp og varð Webber að sætta sig við þriðja sæti.

Er þetta í fyrsta sinn á árinu sem Red Bull bíll hafnar ekki í fyrsta eða öðru sæti. Og í fyrsta sinn frá í brasilíska kappakstrinum í fyrra stendur Vettel ekki á verðlaunapalli. Hann hafði gert sér háleitar vonir um sigur á heimavelli sínum.  

Sebastian Vettel hjá Red Bull missti bíla fram úr sér í ræsingunni og var lengst af í fimmta sæti. Fylgdi Felipe Massa hjá Ferrari eins og skugginn hring eftir hring en komst aldrei í nógu nálægt til að reyna framúrakstur.

Í stöðubaráttunni biðu báðir fram á síðasta hring með að skipta yfir á hörðu dekkin, en þar gekk eitthvað úrskeiðis; skiptin tóku lengri tíma hjá Ferrari og Vettel komst fram úr í bílskúrareininni, á leið út í brautina.

Með úrslitunum komst Hamilton aftur upp í þriðja sætið í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, er fjórum stigum á undan Alonso 134:130, og fimm á eftir Webber 134:139. 

Adrian Sutil hjá Force India átti sinn besta kappkstur á árinu, varð sjötti á heimavelli sínum. Stoppaði hann aðeins tvisvar. Tveir landar hans urðu í næstu sætum, Mercedesþórarnir Nico Rosberg og Michael Schumacher. 

Góð ræsing og frábærlega útfærð tveggja stoppa herfræði fleytti og Kamui Kobayashi hjá Sauber úr 17. sæti upp í það níunda.

Úrslit kappakstursins urðu sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll Tími
1. Hamilton McLaren 1:37.30,334
2. Alonso Ferrari +3,980
3. Webber Red Bull +9,788
4. Vettel Red Bull +47,921
5. Massa Ferrari +52,252
6. Sutil Force India +1.26,208
7. Rosberg Mercedes +hring á eftir
8. Schumacher Mercedes +hring á eftir
9. Kobayashi Sauber +hring á eftir
10. Petrov Renault +hring á eftir
11. Perez Sauber +hring á eftir
12. Alguersuari Toro Rosso +hring á eftir
13. Di Resta Force India +hring á eftir
14. Maldonado Williams +hring á eftir
15. Buemi Toro Rosso +hring á eftir
16. Kovalainen Lotus +2 hr. á eftir
17. Glock Virgin +3 hr. á eftir
18. D'Ambrosio Virgin +3 hr. á eftir
19. Ricciardo Hispania +3 hr. á eftir
20. Chandhok Lotus +4 hr. á eftir
Engu er líkara en Hamilton trúi því vart að hafa …
Engu er líkara en Hamilton trúi því vart að hafa unnið Alonso (t.v.) og Webber. reuters
Hamilton kemur fremstur inn í fyrstu beygju eftir ræsinguna í …
Hamilton kemur fremstur inn í fyrstu beygju eftir ræsinguna í Nürburgring. reuters
Mjótt var milli Alonso (aftast), Webber (l.t.h.) og Hamiltons keppnina …
Mjótt var milli Alonso (aftast), Webber (l.t.h.) og Hamiltons keppnina út í gegn. reuters
Hamilton á leið til sigurs á silfurör McLaren í Nürburgring.
Hamilton á leið til sigurs á silfurör McLaren í Nürburgring. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert