Léttur sjöundi sigur hjá Vettel

Vettel fagnar sigri í Spa.
Vettel fagnar sigri í Spa. reuters

Eftir einkar spennandi og skemmtilegan upphafskafla belgíska kappakstursins - þar sem margir börðust tvísýnni baráttu um efsta sætið - fór Sebastian Vettel hjá Red Bull á endanum með léttan sigur af hólmi.

Þetta var sjöundi sigur Vettels á árinu en sá fyrsti frá í Evrópukappakstrinum í Valencia í júní. Liðsfélagi hans Mark Webber tryggði Red Bull tvöfaldan sigur með sókndirfsku eftir misheppnaða ræsingu þar sem hann missti marga bíla fram úr sér.

Jenson Button hjá McLaren útfærði sömuleiðis sína keppni vel en hann vann sig úr 13. sæti í það þriðja. Komst fram úr Fernando Alonso hjá Ferrari þegar aðeins þrír hringir voru eftir. Og fjórum hringjum fyrr mátti Alonso gefa annað sætið eftir til Webbers. 

Schumacher upp um 19 sæti

Annar sem vann sig vel fram á við er Michael Schumacher hjá Mercedes sem hóf keppni í 24. og síðasta sæti en komst alla leið upp í 5. sæti. Með öðrum orðum, vann sig upp um 19 sæti, sem er einstök frammistaða. Því verður þó ekki móti mælt að bæði hann, Webber og Button nutu góðs af því að öryggisbíll var kallaður út við óhapp Hamiltons og fór fyrir hópnum nokkra hringi.

Lewis Hamilton hjá McLaren var einn þeirra sem slógust jafnri og spennandi baráttu um toppsætið framan af. En á 12. hring féll hann úr leik eftir samstuð við Kamui Kobayashi hjá Sauber. Skall hann á öryggisvegg á miklum hraða og missti meðvitund í nokkrar sekúndur en slapp ómeiddur.

Það fjörgaði keppnina á fyrstu hringjunum að fremstu 10 menn urðu að hefja keppnina á þeim dekjum sem undir bílunum voru í tímatökunum. Voru þau þegar talsverð slitin og fór hratt úr þeim spyrnan eftir að keppnin hófst. Liðu því ekki margir hringir uns hver af öðrum skipti um dekk.

Bilið breikkar

Með sigrinum eykur Vettel enn forystu sína í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Er með 259 stig gegn, 167 stigum Webbers, 157 stigum Alonso, 149 stigum Buttons og 146 stigum Hamiltons.

Í keppni bílsmiða breikkaði bilið verulega við tvöfaldan sigur Red Bull. Er það með 426 stig eftir daginn, McLaren með 295 og Ferrari 231.

Vettel dreyminn á pallunum í Spa.
Vettel dreyminn á pallunum í Spa. reuters
Webber og Vettel fagna tvöföldum sigri Red BUll í Spa.
Webber og Vettel fagna tvöföldum sigri Red BUll í Spa. reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert