Vettel ósnertanlegur í Monza

Vettel hrósar sigri í Monza.
Vettel hrósar sigri í Monza. reuters

Sebastian Vettel var í þessu að vinna fyrsta sigur Red Bull í ítalska kappakstrinum í Monza. Núverandi eða fyrrverandi heimsmeistarar voru í fyrstu fimm sætunum í mark.úka

Vettel stóð aldrei stuggur af keppinautunum og hefur 112 stiga forskot í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra þegar aðeins sex mót eru eftir. Í ræsingunni missti hann forystuna til Fernando Alonso hjá Ferrari sem hafði tekið af stað í fjórða sæti og náð ótrúlega góðui viðbragði.

En Alonso var ekki lengi í paradís því Vettel vann fljótlega aftur af honum fyrsta sætið og þegar leyfilegt var að brúka vængi í návígi til að taka fram úr  var hann sloppinn nógu langt frá keppinautunum. Áttu þeir aldrei möguleika á að leggja til atlögu við hann og fjarlægðist Vettel þá jafnt og þétt.

Keppnin var lengi vel hörð og spennandi milli Michaels Schumacher hjá Mercedes og Lewis Hamilton hjá McLaren um þriðja sætið. Skiptust þeir á að taka hvor fram úr hinum. Jenson Button hjá McLaren naut góðs af rimmu þeirra og dró þá uppi.

Á endanum komst Button fram úr bæði Hamilton og Schumacher og áður en yfir lauk hafði hann dregið Alonso uppi og teið fram úr honum líka - og hreppt annað sætið. Svo fór, að Hamilton komst fram úr Schumacher og nógu langt frá honum til að ekkert návígi yrði aftur milli þeirra.

Var þetta eflaust besta frammistaða Schumacher frá því hann hóf aftur keppni. Sýndi hann gamla baráttutakta og var mjög harðskeyttur viðureignar fyrir McLarenmenn.

Í ræsingunni varð fjöldaárekstur þar sem Vitantonio Liuzzi hjá Hispania missti vald á bíl sínum með þeim afleiðingum að hann fór út úr brautinni og skall á fjölda bíla í fyrstu beygju. Féllu þrír úr leik og fjöldi bíla skemmdist. Var öryggisbíll sendur út í brautina meðan hún var hreinsuð og bílbrakið flutt á brott.

Kappaksturinn var sögulegur fyrir Bruno Senna hjá Renault því hann vann sín fyrstu stig í formúlu-1 með því að ljúka keppni í níunda sæti í aðeins öðru móti með liðinu. Ásamt Paul Di Resta og Sebastien Buemi kom Senna við sögu hópárekstursins í byrjun en allir sluppu þeir nógu vel frá hildarleiknum til að geta haldið áfram og luku allir þrír keppni í stigasæti.

Jaime Alguersuari hjá Toro Rosso átti einnig góðan dag, endaði í sjötta sæti eftir að hafa byrjað í því 18.

Í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra féll Webber niður um sæti, úr öðru  í það þriðja til fjórða. Vettel er með 284 stig, Alonso 172,  Webber og Button 167 og Hamilton með 158.

Í keppni bílsmiða er Red Bull með 451 stig, McLaren 325 og Ferrari 254. Í fjórða er svo Mercedes með 108 stig. 

Kraðak bíla í hópárekstrinum í fyrstu beygju.
Kraðak bíla í hópárekstrinum í fyrstu beygju. reuters
Alonso vann sig úr fjórða sæti í það fyrsta í …
Alonso vann sig úr fjórða sæti í það fyrsta í ræsingunni í Monza. reuters
Átökum Webbers og Massa lauk með samstuði.
Átökum Webbers og Massa lauk með samstuði. reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert