Rosberg sigrar - styrjöld um önnur sæti

Nico Rosberg hjá Mercedes var í þessu að vinna kínverska kappaksturinn í Sjanghæ; jómfrúrsigur sinn í formúlu-1. Hann var í sérflokki en hálfgert kjarnorkustríð fór fram um næstu sæti og gríðarlegar stöðubreytinga keppnina út í gegn.

Með þessu er Rosberg fyrsti nýi ökumaðurinn á efsta sæti verðlaunapalls frá því Sebastian Vettel vann ítalska kappaksturinn í Monza árið 2008 á Toro Rosso bíl. Og verksmiðjulið Mercedes fagnar með þessu sínum fyrsta mótssigri sem verksmiðjulið frá því  Juan Manuel Fangio vann Ítalíukappaksturinn árið 1955. 

Í öðru og þriðja sæti urðu McLarenþórarnir Jenson Button og Lewis Hamilton og á eftir þeim Mark Webber og Sebastian Vettel. Gríðarleg keppni var um 10-12 sætin að baki Rosberg og herfræði liðanna útfærð mjög misjafnlega. Til marks um það var Kimi Räikkönen á Lotus í öðru sæti þegar 6-7 hringir voru eftir af 56 en þá voru dekkin orðin það gatslitin að hann hrundi niður í 14. sæti og varð 50 sekúndum á eftir Rosberg í mark.

Gerði Räikkönen þau bjartsýnismistök að ætla keyra seinni helming kappakstursins á einum og sama dekkjaumganginum eftir seinna stopp af tveimur. Það varð dýrkeypt í lokin. Svipaða herfræði brúkaði Vettel og komst í annað sætið er hann varð fyrstur til að velta Räikkönen úr því. En á þremur til fjórum síðustu hringjunum fékk hann ekki varist Button, Hamilton né Webber og endaði í fjórða sæti.

Ef nefna ætti öll tilþrifin, öll návígin, allar framúrtökurnar, hverja rimmu þá er það efni í heila bók, svo fjörlegur varð kínverski kappaksturinn. Og sé þetta sem koma skal þurfa unnendur formúlunnar ekki að örvænta - hún hefur gengið gegnum endurnýjun lífdaga og er orðin stórskemmtileg á ný; breyting sem hófst þegar fyrir ári. Keppnistímabilið í fyrra var eitt hið skemmtilegasta um langt árabil og allt stefnir í að árið í ár verði ekki lakara með tilkomu Mercedes í toppslaginn.

Talið var fyrirfram að Rosberg myndi tæpast geta ekið til sigurs vegna illrar meðferðar Mercedesbílsins á dekkjunum. Greinilegt er að liðinu hefur tekist að vinna sig að einhverju leyti út úr þeim vanda. Gott forskot Rosbergs gerði honum kleift að hlífa dekkjunum á seinni stigum - á sama tíma og aðrir ökuþórar gengu hart á sín í stöðubaráttu algleyminnar.  

Bæði í fyrra og hitteðfyrra var Rosberg um tíma í forystu í kínverska kappakstrinum en aðrir bílar sigu síðan fram úr eftir því sem á leið. Allt annað var uppi á teningnum núna og eftir góðan sprett og gott forskot á fyrstu hringjum virtist honum aldrei ógnað. Um tíma virtist Button þó ætla velgja honum undir uggum en sá draumur McLaren fór í vaskinn í misheppnuðu dekkjastoppi.

Liðin spiluðu misjafnlega úr herfræði sinni, ökumenn stoppuðu ýmist tvisvar eða þrisvar og einstakar aksturslotur voru mjög misjafnlega langar. Bauð það allt upp á hina grimmu stöðubaráttu þar sem jafvel sex bílar óku á stundum nánast í hnapp. Og í þetta sinn hafði Mercedes gott vald á dekkjunum sem bílar liðsins höfðu gleypt í sig áður. Fyrir bragðið gat Rosberg útfært sína herfræði alveg eins og handritið að henni var skrifað.

Allt gekk upp hjá honum en liðsfélagi hans Michael Schumacher féll hins vegar úr leik á 16. hring vegna mistaka við dekkjaskiptingu. Var eitt dekk ranglega fest á bílinn svo hann varð að hætta nær strax eftir að hann kom út í brautina. Fram að því hafði hann verið í öðru sæti. 

Tveir ökumenn unnu í dag sín fyrstu stig á árinu, Romain Grosjean hjá Lotus sem varð sjötti og Pastor Maldonado hjá Williams er varð áttundi í mark.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert