Lokalota tímatökunnar í Barcelona varð fremur óvenjuleg því þegar tvær mínútur voru eftir af 10höfðu fæstir hreyft bíla sína út úr bílskúrnum. Aðeins tveir ökumenn höfðu sett tímahring og tveir til viðbótar tekið einn úthring en farið beint inn að bílskúr. En þá fór allt í gang og hamagangur í brautinni.
Þegar upp var staðið sat Lewis Hamilton hjá McLaren á ráspól en hann ásamt Nico Rosberg voru þeir einu sem gerðu tvær tímatilraunir - og gengu því meira á dekkjaforðann en aðrir ökumenn. Rosberg hætti reyndar seinni tilrauninni en Hamilton náði afburða hring og var rúmri hálfri sekúndi fljótari en næsti maður með hringinn.
Með þessu vann Hamilton 150. ráspólinn sem kemur í hlut McLaren í formúlu-1. Á innhringnum stöðvaði Hamilton bílinn í brautinni - kannski til að spara dekkin.
Í öðru sæti varð Pastor Maldonado hjá Williams og er það í raun frétt tímatökunnar. Vart þarf að taka fram, að þetta er besti árangur hans í tímatökum í formúlu-1. Í seinni tímatilraun sinni í annarri lotu kom hann eins og þruma úr heiðskíru lofti og setti besta tíma lotunnar. Rétt áður hafði liðsfélagi hans Bruno Senna fallið út í fyrstu lotu með því að aka út í sandgryfju og festast þar. Hefur hann keppni í 18. sæti.
Fernando Alonso hafði rétt fyrir sér er hann sagði í gær að uppfærslur í Ferrarifáknum hefðu skilað betri bíl því hann náði sínum besta tímatökuárangri á árinu, þriðja sæti. Um tíma sat hann á ráspólnum - við mikinn fögnuð landsmanna hans í stúkunum í Barcelona.
Í fjórða og fimmta sæti verða Romain Grosjean og Kimi Räikkönen hjá Lotus. Sergio Perez á Sauber varð sjötti, Rosberg sjöundi, Sebastian Vettel áttundi, Michael Schumacher níundi og Kamui Kobayashi tíundi en hann gat ekki ekið í lokalotunni. Vettel ók nokkra hringi í lokalotunni en setti aldrei tíma. Hið sama er að segja um Schumacher en hann hafði ekki tíma undir lokin til að komast í tímahring.
Það er til marks um hversu jöfn keppnin var um hvert sæti í annarri lotu, að Jenson Button hjá McLaren varð í ellefta sæti og komst ekki í lokaumferðina. Hefði hann ekið einum tíunda úr sekúndu hraðar hefði hann orðið fimmti og keppt áfram um 10 efstu sætin.
Button var fjörutíu þúsundustu úr sekúndu á eftir Michael Schumacher hjá Mercedes sem slapp inn í lokalotuna á síðustu stundu. Tveir aðrir ökumenn toppliða féllu úr leik í annari lotu; Mark Webber á Red Bull og Felipe Massa á Ferrari. Varð Webber tólfti og Massa sautjándi sem er hans lélegasti árangur á árinu.
Kamui Kobayashi á Sauber skaust upp á lokahring úr 17. sæti og tryggði sér sæti í lokalotunni. Svo virtist sem hann hefði ekki bensín til að klára innhringinn, stöðvaði í brautarkanti og gat því ekki tekið þátt í slagnum um 10 efstu sætin á rásmarkinu. Liðið gaf hins vegar þá skýringu að vökvakerfisbilun hefði orðið í bílnum.
Narain Karthikeyan hjá Hispania þarf undanþágu dómara kappakstursins til að geta keppt en vélrænar bilanir gerðu það að verkum að hann náði ekki tilsettum tíma - innan við 7% á eftir fyrsta manni - í fyrstu lotu.