Jenson Button á McLaren hristi af sér slyðruorðið og vann belgíska kappaksturinn. Er það í fyrsta sinn á 13 vertíðum sem heimsmeistarinn fyrrverandi stendur á efsta þrepi verðlaunapallsins þar. Annar varð Sebasitan Vettel á Red Bull og þriðji Kimi Räikkönen á Lotus. Hópárekstur varð í ræsingunni.
Button hóf keppni af ráspól - þeim fyrsta sem hann vinnur sem liðsmaður McLaren - og komst aldrei neinn í tæri við hann. Spilaði hann vel úr stöðu sinni í þessum 50. kappakstri fyrir McLaren og gat leyft sér að taka aðeins einn dekkjastopp. Greinilegt er að silfurör McLaren hefur tekið miklum framförum frá í síðasta móti. Lykillinn að því mun vera nýr afturvængur sem var á bíl Buttons.
Athygli vekur, að Lewis Hamilton, kaus hins vegar að nota gamla vænginn og skýrir það líklega mikinn mun á bílum þeirra Buttons.
Keppni um önnur sæti var hins vegar mikil og nánast óteljandi spennandi atvik þar sem menn tókust á um sæti og freistuðu framúraksturs. Meðal þess djarfasta þar verður að telja atvikið er Räikkönen tók fram úr Michael Schumacher á leið inn í Rauðvatnsbeygjuna svonefndu.
Schumacher barðist mjög vel alla leið og vann sig nokkrum sinnum fram úr keppinautum í krafti þess að geta notað hreyfivænginn í návígum. Hann freistaði aðeins eins dekkjastopps en eftir að Räikkönen komst fram úr honum í síðasta sinn fylgdu aðrir í kjölfarið og átti Schumacher ekki annarra kosta völ en koma inn að bílskúr og fá ný dekk þegar nokkrir hringir voru eftir.
Þar sem Vettel vann sig upp úr tíunda sæti í ræsingunni í annað á endamarki minnkaði forskot Fernando Alonso hjá Ferrari í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna í 24 stig. Alonso féll úr leik í hópárekstri á fyrstu metrunum eftir ræsinguna og er það fyrsti kappaksturinn á árinu sem hann klárar ekki.
Áreksturinn varð er Romain Grosjean á Lotus hugðist skapa sér betri stöðu inn að fyrstu beygju. Við það rakst hann í McLarenbíl Lewis Hamilton. Stjórnlausir runnu þeir inn í næstu bíla og flaug bíll Grosjean meir að segja upp á og yfir Ferrarifák Alonso. Fjórði ökumaðurinn sem féll úr leik var Sergio Perez á Sauber.
Fleiri bílar skemmdust en gátu haldið áfram og skipt um um dekk og vængtrjónur.
Áreksturinn stokkaði röð bílanna stórlega upp. Button var áfram fyrstur en í næstu sætum komu Kimi Räikkönen á Lotus, þá Force India ökumennirnir Nico Hülkenberg og Paul di Resta, Michael Schumacher á Mercedes og síðan Toro Rosso þórarnir Daniel Ricciardo og Jean-Eric Vergne. Hülkenberg endaði í fjórða sæti sem er hans besti árangur í formúlu-1.
Atvikið tafði för Mark Webber og Vettel hjá Red Bull sem voru í áttunda og tólfta sæti eftir fyrsta hring. Áttu þeir eftir að vinna sig mjög fram á við en Alonso þakkar eflaust liðsfélaga sínum Felipe Massa mjög fyrir að taka fram úr Webber undir lokin svo hann endaði í sjötta sæti. Var Webber í öðru sæti í stigakeppni ökumanna, 40 stigum á eftir Alonso, en eftir kappaksturinn í Spa er hann í þriðja sæti, 32 stigum á eftir. Vettel skaust upp í annað sætið en er 24 stigum á eftir; 164:140.
Räikkönen sækir sömuleiðis fram í titilslagnum og er fjórði, einu stigi á eftir Webber.