Stefano Domenicali liðsstjóri Ferrari játar að liðið þurfi að bæta keppnisbíl sinn enn frekar til að tryggja að Fernando Alonso missi ekki af heimsmeistaratitli ökumanna í mótunum sex sem eftir eru af vertíðinni.
Að loknum kappakstrinum í Singapúr er Alonso 29 stigum á undan næsta manni, heimsmeistaranum Sebastian Vettel hjá Red Bull. Samfara stöðugri frammistöðu Alonso í toppsætum hafa keppinautar hans verið upp og ofan og árangur þeirra mjög sveiflukenndur.
Dæmi um það er að Vettel og Lewis Hamilton, tveir af helstu keppinautum hans, hafa hvor um sig unnið sigur og jafnframt fallið úr leik í síðustu tveimur mótum. Í þeim báðum stóð Alonso hins vegar á verðlaunapalli að keppni lokinni.
En með tilliti til þess að ökumenn McLaren hafa unnið ráspól í fjórum síðustu mótum og Red Bull virðist aftur á sigurbraut gera Ferrarimenn sér ljóst, að titillinn er með engu móti kominn í höfn.
„Við verðum að bæta getu bílsins fyrir lokasprettinn, við getum ekki reitt okkur á ófarir keppinautanna,“ segir Domenicali. „Sérstaklega þurfum við að bæta okkur á brautum sem krefjast mikillar vængpressu. Við megum þó ekki ofgera, betra er að gera fáar uppfærslur í hvert sinn sem virka frekar en margar sem virka ekki. Það verður forgangsverkefni okkar á næstu dögum,“ segir Domenicali liðsstjóri.