Lewis Hamilton til Mercedes

Lewis Hamilton yfirgefur McLarenliðið og keppir fyrir Mercedes í formúlu-1 næstu þrjú árin. Leysir hann Michael Schumacher af hjá þýska liðinu.

Eina ferðina enn sannast að kjaftasögur eru sönnustu sögurnar í formúlunni því þrálátur orðrómur hefur verið um Mercedisför Hamiltons undanfarnar vikur og mánuði. Fyrir allt hefur verið þrætt af hálfu forsvarsmanna McLaren og Mercedes. Síðast í gær töluðu liðsstjórar beggja, Ross Brawn og Martin Whitmarsh, eins og þetta væri slúður af verstu sort og ekkert sannleikskorn á bak við sögusagnirnar.

Umboðsmenn Hamilton hafa undanfarnar vikur gengið á milli McLaren og Mercedes og leitað samninga og tekist á um fjárhæðir. Á endanum bauð Mercedes meira kaup og því ákvað Hamilton að taka boði liðsins í gær.

„Tími er kominn til að takast á við nýjar áskoranir og ég er mjög spenntur fyrir því að hefja nýjan kapítula á ferlinum hjá Mercedes. Arfleið Mercedes í akstursíþróttum er gríðarleg og liðið er haldið sigurástríðu - sem ég deili,“ sagði Hamilton í dag í tilefni samningsins við Mercedes.

Þetta eru fyrstu liðsskipti hans frá því hann hóf keppni í formúlu-1 árið 2007.

Rosberg og Hamilton liðsfélagar á ný

Svo skemmtilega vill til, að Hamilton og verðandi liðsfélagi hans hjá Mercedes, Nico Rosberg, hafa áður verið liðsfélagar. Það var á dögum þeirra á barns- og unglingaaldri í evrópskum körtukappakstri. Stofnuðu þeir þá til góðrar vináttu sem varað hefur allar götur síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert