Sebastian Vettel hjá Red Bull var í þessu að vinna suður-kóreska kappaksturinn. Með þessum þriðja mótssigri í röð í ár hefur hann jafnframt tekið forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra af Fernand Alonso hjá Ferrari, sem varð þriðji.
Vettel hóf keppni í öðru sæti en nokkrum sekúndum eftir að skotið reið af í ræsingunni var hann kominn fram úr liðsfélaga sínum Mark Webber og eftir það var honum aldrei ógnað. Hvort um liðsskipan hafi verið að ræða - eins og við þótti blasa - fæst víst seint svar við. Vettel til góða verður að taka fram að Webber hefur sjaldnast talist góður í viðbragði.
Þetta var 25. sigur Vettels á ferlinum og sá fjórði í ár. Er hann eini ökuþórinn með svo marga mótssigra undir belti í ár. Aukinheldur var þetta í fyrsta sinn á árinu sem Red Bull á tvo fyrstu bílana í mark.
Alonso hóf keppni fimmti en vann sig upp í þriðja sætið á fyrsta hring og ógnaði hann aldrei Webber svo orð sé á gerandi. Hafði hann meiri áhyggjur af liðsfélaga sínum Felipe Massa sem hélt sig í humátt á eftir til að trufla ekki titilslaginn.
Með ökumenn sína í þriðja og fjórða sæti komst Ferrari fram úr McLaren í keppni liðanna og upp í annað sætið á eftir Red Bull. Af hálfu McLaren var dagurinn mislukkaður. Jenson Button féll úr leik á fyrsta hring er Kamui Kobayashi hjá Sauber keyrði aftan á hann. Hetja síðasta móts eflaust skúrkur dagsins í augum McLarenmanna - og eflaust hjá Mercedes líka því Kobayashi átti sinn þátt í að Nico Rosberg féll úr leik.
Þá mislukkaðist þriggja stoppa herfræði Lewis Hamilton sem varð aðeins tíundi í mark, eftir að hafa byrjað kappaksturinn af þriðja rásstað. Dekkjaslit háði honum talsvert og á lokahringjunum hafði hann myndarlegan trefil um hægri hliðarbelg bílsins er gervigras losnaði í einni beygju og festist á bílnum.
Möguleikar Hamilton í titilkeppninni dvínuðu verulega með þessum árangri í Suður-Kóreu. Er hann nú 62 stigum á eftir Vettel, þegar aðeins 100 stig að hámarki eru eftir í pottinum.
Í fimmta sæti í mark varð Kimi Räikkönen á Lotus og liðsfélagi hans Romain Grosjean varð sjöundi eftir slag mótið út í gegn við Nico Hülkenberg hjá Force India sem varð sjötti. Í áttunda og níunda sæti urðu Jean-Eric Vergne og Daniel Ricciardo á Toro Rosso.
Fyrir Mercedes var kappaksturinn sömuleiðis hörmung. Rosberg féll úr leik á fyrstu metrunum eins og áður segir og Michael Schumacher varð aðeins þrettándi.
Aldrei var nein spenna í keppninni um fyrstu fimm sætin. Hefur Vettel nú sex stiga forskot á Alonso í titilkeppninni þegar aðeins fjögur mót eru eftir, 215 stig gegn 209. Räikkönen er þriðji með 167, Hamilton fjórði með 153, Webber fimmti með 152 og Button sjötti með 131. Þá koma Rosberg með 93, Grosjean með 88, Massa með 81 og Sergio Perez á Sauber með 61.
Í keppni liðanna er Red Bull með 367 stig, Ferrari 290, McLaren 284, Lotus 255, Mercedes 136, Sauber 116, Force India 89, Williams 58 og Toro Rosso 21.