Hamilton kveður starfslið McLaren

Lewis Hamilton.
Lewis Hamilton. mbl.is/afp

Lewis Hamilton hefur hvatt starfsmenn í höfuðstöðvum McLarenliðsins, en hann gengur til liðs við Mercedes eftir vertíðarlok og keppir fyrir þýska liðið næstu árin.

Heimsmeistarinn frá 2008 sagði að McLaren myndi um aldur og ævi skipa sérstakan sess í huga hans og hjarta, en undir verndarvæng þess hefur hann alist upp sem ökumaður frá unga aldri. Gekk hann til liðs við McLaren 13 ára gamall eða fyrir 14 árum.

Mörg hundruð manns voru viðstödd kveðjuathöfnina þar sem Hamilton talaði af miklum tilfinningaþunga. „Ég er hrikalega hreykinn af því að hafa starfað í þágu McLaren svo lengi. Ég man eftir fyrsta deginum sem ég kom í gömlu bílsmiðjuna, 13 ára gamall.  Hjá McLaren hef ég dvalist hálfa ævi mína. Liðið, staðurinn, fólkið verður alltaf mjög sérstakt í mínum huga og mér hjartfólgið. Mercedesstöðvarnar eru ekki eins stórkostlegar og þessar,“ sagði hann.

Hamilton játti að hann teldi sig ekki lengur eiga möguleika á heimsmeistaratitli ökumanna í ár. Hann er sem stendur 62 stigum á eftir Sebastian Vettel þegar fjögur mót eru eftir. Hann segist þó staðráðinn í að reyna ná sem allrabestum árangri til vertíðarloka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert