Schumacher kvaddur með keppnisbíl

Michael Schumacher verður kært kvaddur þegar hann lýkur keppni fyrir Mercedesliðið við vertíðarlok, 25. nóvember næstkomandi. Verður honum gefinn keppnisbíll við það tækifæri.

Að sögn útbreiddasta blaðs Þýskalands,  Bild, fær Schumacher bílinn sem hann stýrði til ráspóls í Mónakókappakstrinum í maí sl. Þótt hann færðist niður í sjötta sæti eftir tímatökurnar vegna refsingar frá kappakstrinum á undan var akstur hans í Mónakó þennan dag hápunkturinn til þessa á ferli hans sem ökuþór Mercedes.

Besti árangur hans í keppni er þriðja sætið úr Evrópukappakstrinum í Valencia. Þar sýndi hann gamla meistaratakta og vann sig fram úr hverjum bílnum á fætur öðrum frá því skotið reið af og þar til í mark var komið.

Schumacher á að baki 304 mót í formúlu-1. Á ferlinum hefur hann unnið heimsmeistartitil ökumanna sjö sinnum, aflað liðum sínum 1.560 stiga, unnið kappakstur 91 sinni og staðið auk þess 64 sinnum á annað hvort öðru eða þriðja þrepi verðlaunapallsins. Þá var ráspóllinn í Mónakó sá 68. á ferlinum, sem hófst 1992.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert