Kimi Räikkönen á Lotus var í þessu að vinna kappaksturinn í Abu Dhabi, sinn fyrsta sigur frá 2009. Bilið í keppninni um titil ökumanna minnkaði ekki mikið þar sem Sebastian Vettel tókst að aka upp í þriðja sæti úr því síðast, en Fernando Alonso varð annar.
Sigurinn er sá fyrsti sem Räikkönen vinnur frá því hann sneri aftur til keppni í formúlu-1 í ár, en undanfarin tvö ár keppti hann á HM í ralli. Síðast stóð hann á efsta þrepi verðlaunapalls í belgíska kappakstrinum í Spa Francorchamps 2009, eða fyrir rúmum þremur árum.
Þá er þetta fyrsti sigur Lotus sem liðs í tæp 30 ár, eða frá því Ayrton Senna vann bandaríska kappaksturinn 1987. Lotus hét áður Renault og sem slíkt sigraði það í japanska kappakstrinum 2008, með Alonso undir stýri.
Alonso hóf keppni af sjötta rásstað og vann sig með mikilli keppnishörku upp úr sjötta sæti af rásmarki. Sótti hann ákaft á Räikkönen á lokahringjunum og um tíma munaði um sekúndu á þeim en hann komst þó aldrei í færi til að leggja til atlögu.
Vettel hóf keppni úr bílskúrareininni - og þar með í 24. sæti - vegna refsingar frá í gær. Það gerði liði hans kleift að fínstilla bílinn til keppninnar, en það gátu önnur lið ekki sem tóku af stað af rásmarkinu. Vann hann sig jafnt og þétt fram á við og lágmarkaði tjón sitt í titilkeppninni. Í stað 13 stiga forskots á Alonso fyrir mót hefur hann nú 10 stiga forystu fyrir lokamótin tvö.
Dramatík sem í spennuleikriti væri
Óhætt er að segja að kappaksturinn hafi verið með þeim dramatískari vegna byrjunarstöðu Vettels og jók á leikrænuna þegar Lewis Hamilton á McLaren féll úr leik vegna rafkerfisbilunar. Fram að því hafði hann verið í algjörum sérflokki, en í gær og fyrradag ók hann hraðast í tímatökum og öllum æfingunum þremur.
Við brottfall Hamiltons erfði Räikkönen forystuna og lét engan komast í tæri við sig 35 síðustu hringina, ekki einu sinni þótt forskot hans hyrfi er öryggisbíllinn kom út öðru sinni.
Vettel sótti stíft frá byrjun og meðan ökumenn voru á eftir öryggisbíl í seinna skiptið ók hann á skilti við brautarkant er hann forðaði sér frá því að keyra aftan á Daniel Ricciardo hjá Toro Rosso. Skaust hann inn eftir nýjum nýjum framvæng, sem þegar hafði skemmst í hamaganginum á fyrstu hringjunum.
Rosberg í flugferð - Webber tuddaðist um of
Útkoma hans var nauðsynleg eftir einkennilega aftanákeyrslu Nico Rosberg á Narain Karthikeyan hjá Hispania á 13. hring. Tókst Mercedesbíllinn á loft og flaug yfir bíl Indverjans en hvorugan sakaði. Var það ekki fyrsta aksturtilvik Rosberg því á fyrsta hring ók hann á Romain Grosjean hjá Lotus sem varð að fara inn að bílskúr til vængskipta.
Aftur var bíllinn kallaður út á 38. hring, er 17 hringir voru eftir, vegna hópárekstur sem Sergio Perez á Sauber olli. Í því atviki féllu Mark Webber og Grosjean úr leik en Perez og Paul di Resta gátu haldið áfram. Var Perez refsað, honum var gert að aka inn á þjónustusvæðið og stoppa 10 sekúndur við bílskúr sinn áður en hann héldi áfram.
Er öryggisbíllinn hvarf úr brautinni hófst 12 hringja endasprettsslagur milli fjögurra heimsmeistara; Räikkönen, Alonso, Jensons Button hjá McLaren og Vettels. Alonso slapp fljótt nógu langt frá Button og Vettel til að þeir gætu ekki notað DRS-búnað til að sigla hann uppi. Tók hann um leið að sækja á Räikkönen.
Römm átök héldu hins vegar áfram hring eftir hring milli Buttons og Vettels og að því kom að DRS-búnaðurinn gagnaðist þeim síðarnefnda til að hafa þriðja sætið af Button þegar fjórir hringir voru eftir. Þótt Vettel setti besta hringtíma eftir það var Alonso sloppinn of langt í burtu til að takast mætti á við hann.
Mark Webber hjá Red Bull hafði stór orð um sókndirfsku sína eftir að hann vann annað sætið á rásmarkinu. Ræsingin fór þó eins oft áður hjá honum, hann tók illa af stað og missti strax nokkra menn fram úr sér. Í samræmi við nafn liðsins tuddaðist hann áfram eftir það og gerði hvert glappaskotið af öðru; stangaði keppinauta hvað eftir annað en allt er þá er þrennt er; það endaði með brottfalli, með því að keyra á Romain Grosjean á Lotus.
Pastor Maldonado á Williams var fimmti í mark, tapaði tveimur sætum miðað við rásstað, og Felipe Massa á Ferrari sjötti þrátt fyrir að hafa snarsnúist er Webber stangaði hann í návígi, og á því hagnaðist Vettel sem kom aðvífandi og smeygði sér fram úr Ferrariþórnum.
Bruno Senna hjá Williams og di Resta náðu sér á strik eftir að verða báðir fyrir ákeyrslu og urðu í áttunda og níunda sæti, en síðasta stigið hirti Ricciardo.