Sebastian Vettel hjá Red Bull var í þessu að vinna kappaksturinn í Barein. Eftir harðan slag við ráspólshafan Nico Rosberg á Mercedes og Fernando Alonso á Ferrari á upphafshringjunum sigldi Vettel auðan sjó og var aldrei ógnað.
Á endanum fór svo að Rosberg nýttist ekki ráspóllinn til afreka því Mercedesbíllinn nýtti dekkin illa svo hann féll alla leið niður í áttunda sæti á endamarki. Og óheppnin elti Alonso þar sem afturvængur hans bilaði svo hann gat ekki beitt DRS-búnaðinum. Varð hann meir að segja taka aukastopp eftir sex hringi - hring eftir fyrsta dekkjastopp - til að láta loka vængnum með handafli.
Eftir afar slaka frammistöðu í tímatökunum í gær bætti Lotusliðið sér það upp með vel heppnaðri herfræði sem skaut Kimi Räikkönen úr áttunda sæti á rásmarki í annað sætið á endamarki og Romain Grosjean úr ellefta sæti í það þriðja. Tóku bæði Räikkönen og Grosjean dekkjastoppi færra en keppinautarnir.
Með því að þeir komust á verðlaunapall við hlið Vettels urðu úrslitin í Barein í dag nákvæmlega eins og í fyrra. Og með þessari frammistöðu færðist Lotusliðið upp í annað sætið í keppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða, hefur 93 stig gegn 111 stigum Red Bull, 77 stigum Ferrari og 64 stigum Mercedes.
Ferrari átti hörmungardag, hefði bilun DRS-búnaðar Alonso ein og sér dugað til þeirrar einkunnargjafar. En til viðbótar þoldu dekkin illa við undir bíl Felipe Massa sem þurfti að koma inn og skipta yfir á ný á 10 hringja fresti framan af. Til viðbótar sprakk dekk hjá honum tvisvar í kappakstrinum. Hafnaði hann í 15. sæti.
Skotinn Paul di Resta hjá Force India ók sömuleiðis vel og var lengi í verðlaunasæti en hann átti ekkert svar við sókn Grosjean á síðustu 10-15 hringjunum.
Hörð stöðubarátta var kappaksturinn út í gegn um sæti fjögur til 10 og komu margir ökumenn við sögu. Einna skæðust var rimma Marks Webber hjá Red Bull og Lewis Hamilton hjá Mercedes á síðustu hringjunum. Sóttu báðir grimmt og vörðust af mikilli hörku, stundum lá við að hún væri full mikil.
Sömuleiðis glímdu liðsfélagarnir Sergio Perez og Jenson Button hjá McLaren hart og lengi. Gengu lætin það langt að Button kvartaði undan Perez fyrir að nudda ítrekað í sig og ógnaði Button með glannalegu framferði. Rak Peres sig m.a. í afturdekk á bíl Button og braut stykki af framvæng sínum, en báðir sluppu þeir annars vel frá atvikinu. Einnig átti Perez oft í útistöðum við aðra ökumenn. Á lokahringnum vann Perez sér það til ágætis að mjaka sér fram úr Webber og ná sjötta sætinu meðan Button varð aðeins tíundi í mark.
Með sigrinum hefur Vettel aukið forskot sitt í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna í 10 stig; er með 77 stig gegn 67 stigum Räikkönen, 50 stigum Hamiltons, 47 stigum Alonso, 34 stigum Webber og 30 stigum Massa. Næsti kappakstur fer fram í Barcelona eftir hálfan mánuð.