Fernando Alonso naut innhringsins í Katalóníuhringnum í Barcelona í ystu æsar og hafði ástæðu til. Fatt er gleðilegra en að vinna á heimavelli fyrir troðfullum stúkum af landsmönnum sínum. Kætti Alonso kreppukvalda Spánverja svo um munaði með sigrinum konunglega.
Já, Alonso ók sem kóngur væri í Katalóníuhringnum og er lofsins verðugur fyrir frammistöðu sína. Og hann galt hvatningu áhorfenda með því að aka lúshægt á innhringnum og veifa alla leið heim að bílskúr. Naut hann stundarinnar enda langþráður sigur á heimavelli höfn; þann síðasta vann hann í Barcelona á Renaultbíl árið 2006.
Strax í fyrstu tveimur beygjum sýndi Alonso tilþrif sem fáir geta leikið eftir. Tók utanvert fram úr tveimur ökumönnum, Lewis Hamilton á Mercedes og Kimi Räikkönen á Lotus.
Þar með var hann kominn upp í þriðja sæti og fljótlega var Sebastian Vettel hjá Red Bull einnig orðið fórnarlamb hans. Var þá aðeins fremsti maður eftir, Nico Rosberg hjá Mercedes, sem hóf keppni af ráspól.
Talsverð spenna var í keppninni fram í hana rúmlega miðja vegna ólíkrar herfræði liðanna. Stóra spurningin var hvort Räikkönen tækist að ógna sigri Alonso og hvort Vettel ætti eftir að láta til sín taka á seinnihluta kappakstursins.
Galdramaður í nýtingu dekkja
Eftir fjórða dekkjastopp sitt, eftir 50 hringi af 66, var staða Alonso afar góð, sigurinn blasti við. Enn mátti þó spyrja hvort galdramaðurinn í nýtingu dekkja, Räikkönen, myndi geta dregið á meistaraökumanninn Alonso til loka. Sá síðarnefndi gat sér leyft sér að spara dekkin og búast þannig til óvinnanlegrar varna gegn hugsanlegri sókn Räikkönen, sem gat leyft sér að taka einu stoppi minna þar sem Lotusinn fer betur með dekkin en Ferrari.
Á endanum sætti Räikkönen sig við annað sætið í þriðja sinn í fimm mótum ársins. Og þar sem aldrei kvað neitt að Vettel, sem hafnaði í fjórða sæti, rúmum 38 sekúndum á eftir Alonso, treysti finnski ökumaðurinn stöðu sína í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Er hann aðeins fjórum stigum á eftir Vettel,89:85.
Massa í fyrsta sinn á verðlaunapalli í ár
Til að auka á gleði stuðningsmanna Ferrari varð Felipe Massa þriðji í mark en það er í fyrsta sinn sem hann kemst á verðlaunapall á árinu. Hóf hann keppni níundi og vann sig því upp um sex sæti. Fimmti varð Mark Webber hjá Red Bull, sjötti varð svo Rosberg og sjöundi Paul di Resta á Force India sem dugði aldrei bílnándin til að vinna sig fram úr Rosberg á síðustu 5-10 hringjunum.
McLaren kom betur frá mótinu en á horfðist þar sem Jenson Button varð áttundi og Sergio Perez níundi. Síðasta stigið sem í boði var hirti svo Daniel Ricciardo á Toro Rosso. Í ellefta sæti og afar nærri því að vinna sín fyrstu formúlustig varð Esteban Gutierrez á Sauber. Nýliðinn sá ók afar langt fram að fyrsta dekkjastoppi og naut þess um skeið að leiða kappakstur í formúlu-1 í fyrsta sinn á ferlinum.
Mercedesbílarnir hrynja eftir nokkra hringi
Í fjórtánda sæti í mark varð sigurvegarinn í Barcelona frá í fyrra, Pastor Maldonado hjá Williams. Var öldin önnur hjá Williams í dag en í fyrra og áttu Maldonao og liðsfélagi hans Valtteri Bottas erfiðan dag. Þurfti Maldonado að taka út refsingu fyrir að aka of hratt í bílskúrareininni.
Lewis Hamilton hjá Mercedes hóf keppni annar en ók yfir endamarkið í tólfta sæti. Staðfestir það eina ferðina enn - og einnig hrun Rosbergs úr fyrsta sæti í það sjötta - hversu handónýtir Mercedesbílarnir eru í keppni miðað við tímatökum. Sé þeim beitt, eins og Rosberg gerði meðan hann reyndi að halda forystunni, spæna bílarnir dekkin upp á augabragði. Um tíma var Hamilton beðinn að spara dekkin en hann svaraði að vörum spori: „Ég kemst ekki hægar en þetta“.