Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) hefur bannað brot í trjónu formúlubílanna frá og með næstu keppnistíð.
Aðeins bílar Lotus og Caterham í ár eru með broti í trjónunni en í fyrra voru bílar allra liða nema McLaren þannig úr garði gerðir. Það var að kröfu FIA sem vildi lækka trjónur bílanna, meðal annars til að bæta útsýni ökumanna og þar með auka á öryggi.
Þóttu bílarnir með afbrigðum ófríðir í fyrra og hafa neikvæðar undirtektir átt sinn þátt í að FIA hefur ákveðið að uppræta „andanefjutrjónurnar“.