„Mér líkar ekki bíllinn,“ sagði Lewis Hamilton hjá Mercedesliðinu eftir æfingarnar í Silverstone í dag. Hann hefur áður sagst stefna að sigri í breska kappakstrinum á sunnudag en þær vonir hans virtust dvína í dag.
Liðsfélagi Hamiltons, Nick Rosberg, var heldur ekki ýkja hress eftir æfingarnar þótt hann setti besta brautartíma dagsins. Sagðist hann hafa áhyggjur af hraða bílsins í langakstri - í keppni - og óttaðist að hann hafi dregist aftur úr keppinautunum frá síðasta móti.
Hamilton sagðist ekki hafa notið akstursins í dag þar sem hann hafi átt í miklu basli með að finna heppilega uppsetningu bílsins. Það hafi bitnað mjög á bílhraðanum, sérstaklega í háhraðabeygjum Silverstone. Setti hann aðeins fimmta besta tímann.
„Bíllinn virðist ekki alslæmur, langaksturinn virtist ekki gera sig og við þurfum að breyta uppsetningu hans til að verða samkeppnisfærir. Ég nýt bílsins þó ekki sem stendur, ég hef ekki fundið nógu gott jafnvægi í hann. Þegar maður nær ekki að fljúga gegnum [beygjurnar] Becketts og Maggotts þá virðast aðrir hlutar brautarinnar ekki góðir,“ sagði Hamilton.
Hann sagðist binda vonir við að geta ráðið fram úr vandamálunum á æfingunni í fyrramálið, laugardag, og gera bílinn sér þóknanlegri.