Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna ráspól belgíska kappakstursins en keppnin um hann var ótrúlega sviptingasöm. Er þetta fjórði ráspóll hans í röð, en annar varð Sebastian Vettel á Red Bull og þriðji Mark Webber liðsfélagi hans.
Þegar köflótta flaggið féll voru Hamilton og Vettel í níunda og tíunda sæti en þeir höfðu nokkrum sekúndum áður lokið hring og gátu því haldið áfram. Var þá stytt upp og brautin að þorna hratt sem gerði þeim kleift, og einnig Webber, að gera aðra atlögu að toppsæti. Gekk það upp hjá þeim þremur og þar sem Hamilton var síðastur að klára gat enginn ógnað honum. Hafði hann allt fram að þessu átt í erfiðleikum og komst til að mynda á síðustu sekúndunum í aðra og þriðju lotu.
Fram að síðasta hring var Paul di Resta hjá Force India á ráspól - sínum fyrsta á ferlinum hefði hann haldið sætinu - en í blálokin fór Nico Rosberg á Mercedes fyrst fram úr og síðan hinir þrír á þeirra lokahring.
Di Resta hafði sýnt þá kænsku að bíða í bílskúrnum meðan keppinautarnir tóku sinn fyrsta hring í brautinni. Sást þá að byrjað var að rigna á ný og bílarnir skautuðu á þurrdekkjunum. Herfræði allra nema hans hafði farið forgörðum. Skellt var millidekkjum undir bíl di Resta sem rauk af stað meðan hinir komu inn að bílskúr til að fá millidekk.
Tími di Resta virtist óvinnanlegur uns alveg í blálokin en þá stytti upp og brautin tók að þorna hratt. Og því seinna sem menn voru á ferðinni eftir dekkjaskipti græddu þeir meira. Má segja um tímatökuna í Spa í heild að hún hafi verið lotterí.
Tímatakan fór forgörðum hjá Fernando Alonso sem lenti út úr brautinni og varð aðeins níundi. Liðsfélagi hans Felipe Massa hefur svo keppni af 10. rásstað.
Rosberg varð á endanum fjórði, di Resta fimmti, Jenson Button hjá McLaren sjötti, Romain Grosjean sjöundi og Kimi Räikkönen liðsfélagi hans hjá Lotus áttundi.
Með útsjónarsamri dekkjataktík í fyrstu lotu tókst ökumönnum að komast í aðra umferð sem þar er sjaldan eða aldrei að finna. Það á við um Giedo van der Garder hjá Caterham sem varð fjórtándi, Jules Bianchi hjá Marussia sem varð fimmtándi og Max Chilton hjá Marussia sem varð sextándi.
Á óvart kom að báðir ökumenn Toro Rosso, Jean-Eric Vergne og Daniel Ricciardo, féllu út í fyrstu umferð en þeir hafa oft komist í þriðju lotu.