Vettel einn á báti alla leið

Vettel ekur yfir endamarkið sigri hrósandi.
Vettel ekur yfir endamarkið sigri hrósandi. mbl.is/afp

Sebastian Vettel hjá Red Bull var í þessu að vinna einn af auðveldari sigrum sínum er hann kom fyrstur í mark í ítalska kappakstrinum í Monza, sem var vettvangur jómfrúarsigur hans á sínum tíma. Þetta er sjötti sigur hans í ár og sá 32. á ferlinum.

Fernando Alonso hjá Ferrari varð annar, Mark Webber hjá Red Bull þriðji og Felipe Massa hjá Ferrari fjórði. í samanburði við flest önnur mót ársins var kappaksturinn fremur snauður sem skemmtan, ef undan eru skilin glæsileg tilþrif við framúrakstur.

Þar ber fyrst við sögu Alonso er vann þriðja sætið af Webber og stuttu seinna heimti hann annað sætið með því að laumast fram úr Massa. Þá sýndu bæði Lewis Hamilton og Kimi Räikkönen snilldarleg tilþrif, bæði í innbyrðis rimmum og gegn öðrum ökumönnum.

Vettel hóf keppni af ráspól og losaði hann sig strax við keppinautana. Var honum aldrei ógnað og bilið milli þeirra Alonso var tiltölulega stöðugt kringum fimm sekúndur. Webber vann sig fram úr Massa í dekkjastoppum og andaði eftir það niður hálsmálið á Alonso, án þess þó að geta gert alvöru atlögu að honum.

Með sigrinum eykur Vettel forskot sitt í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna í 51 stig. Hann hefur aflað sér 222 stiga gegn 169 stigum Alonso, 141 stigum Hamiltons, 134 stigum Räikkönen og 130 stigum Webbers.

Að sama skapi styrkti Red Bull stöðu sína í keppni bílsmiða og var hún þó góð fyrir; er með 352 stig gegn 248 stigum Ferrari, 245 stigum Mercedes og 191 stigum Lotus. 

Vettel fagnar sigri á verðlaunapallinum í Monza með Alonso og …
Vettel fagnar sigri á verðlaunapallinum í Monza með Alonso og Webber til hvorrar hliðar. mbl.is/afp
Vettel ekur yfir endamarkið sigri hrósandi.
Vettel ekur yfir endamarkið sigri hrósandi. mbl.is/afp
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert