Vettel: Höfum gaman af

Vettel fagnar sigri í Suður-Kóreu.
Vettel fagnar sigri í Suður-Kóreu. mbl.is/afp

Sebastian Vettel var að vonum ánægður með árangur sinn í suðurkóreska kappakstrinum, en það var fjórði mótssigur hans í röð. Með sigrinum náði hann og 77 stiga forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna þegar fimm mót eru eftir.

Næsti maður á eftir honum í titilslagnum, Fernando Alonso hjá Ferrari, varð aðeins sjötti í mark í morgun. Þyrfti hann þrjá sigra í röð og Vettel að falla úr leik í sömu mótum til að saman drægi með þeim. Þarf Vettel aðeins 48 stig af 125 mögulegum í mótunum sem eftir eru til að vinna titilinn fjórða árið í röð.

„Ég er afar sæll með úrslitin. Dekkjastoppin voru frábærlega útfærð og tímasetning þess seinna mjög góð, ég átti aðeins eftir tvær beygjur af hringnum þegar öryggisbíllinn kom út. Til allrar hamingju hafði ég nægan hraða til að halda smá forskoti því Kimi [Räikkönen] og Romain [Grosjean] voru samkeppnisfærir því lengri sem akstursloturnar voru. Þeir notuðu dekkin vel.

Ég nýt þess sem ég er að gera, liðið er frábært og við höfum gaman af öllu saman,“ sagði Vettel eftir sigurinn í Yeongam. Hann sagðist hlakka til næsta móts, japanska kappakstursins í Suzuka. „Ég held það sé í hreinskilni sagt besta braut í heimi.“

Vettel og Grosjean skála á verðlaunapallinum í Suður-Kóreu.
Vettel og Grosjean skála á verðlaunapallinum í Suður-Kóreu. mbl.is/afp
Vettel fagnar sigri í Suður-Kóreu með liðsmönnum sínum.
Vettel fagnar sigri í Suður-Kóreu með liðsmönnum sínum. mbl.is/afp
Vettel og Räikkönen hlýða á þýska þjóðsönginn á verðlaunapallinum í …
Vettel og Räikkönen hlýða á þýska þjóðsönginn á verðlaunapallinum í Yeongam í Suður-Kóreu. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert