Vettel á ráspól

Vettel á leið til ráspóls í Indlandi.
Vettel á leið til ráspóls í Indlandi. mbl.is/afp

Sebastian Vettel hjá Red Bull hafði yfirburði í tímatökunum í Nýju Delhí og vann því ráspól indverska kappakstursins af öryggi. Með dekkjataktík varð hann tæplega sekúndu á undan næstu mönnum, Nico Rosberg og Lewis Hamilton hjá Mercedes.

Útlit var fyrir að liðsfélagi Vettels, Mark Webber, yrði samhliða honum á fremstu rásröðinni á heppilegri keppnisdekkjum, þeim meðalhörðu, en Mercedesmennirnir komust á síðustu stundu fram fyrir hann á rásmarkinu.

Vettel hefur því keppni á morgun á mýkri dekkjunum sem ættu að gefa forskot í byrjun en gætu leitt til þess að hann verði að hafa dekkjaskipti mun fyrr en keppinautarnir helstu.

Felipe Massa hjá Ferrari bætti sig er á leið og hreppti undir lokin fimmta sætið, einu framar en liðsfélagi hans Fernando Alonso, sem varð aðeins áttundi. Kimi Räikkönen og Nico Hülkenberg stungu sér á milli Ferrariþóranna. Tuginn fylltu svo McLarenmennirnir Sergio Perez og Jenson Button.

Romain Grosjean hjá Lotus veðjaði á meðalhörðu dekkin í upphafslotunni, eins og Vettel, en vegna ítrekaðra akstursmistaka klúðraði hann málum þann veg að hann sat eftir í sautjánda sæti. 

Vettel var í algjörum sérflokki í tímatökunni í Nýju Delhí.
Vettel var í algjörum sérflokki í tímatökunni í Nýju Delhí. mbl.is/afp
Vettel einbeittur í bíl sínum milli aksturslota.
Vettel einbeittur í bíl sínum milli aksturslota. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert