Vettel heimsmeistari með sigri

Sebastian Vettel hjá Red Bull var í þessu að vinna sigur í indverska kappakstrinum en með því tryggði hann sér heimsmeistaratititl ökumanna fjórða árið í röð. Annar varð  Nico Rosberg á Mercedes og þriðji Romain Grosjean á Lotus.

Allt leit út fyrir að Mark Webber hjá Red Bull færi með sigur af hólmi á grundvelli velheppnaðrar dekkjaherfræði. Hafði hann lengst af undirtökin gegn félaga sínum en svo fór, að gírkassi hans gaf sig á fertugasta hring af sextíu.

Allt í einu fékk hann fyrirmæli um að stöðva bílinn og það á stað sem ekki hefði áhrif á keppnina. Átti hann ekki um annað að velja en hlýða liðsstjórum, því hefði hann haldið áfram uns yfir þraut hefði það getað útheimt öryggisbíl í brautina og þar með hefði sigri Vettels verið ógnað.

Fjörleg stöðubarátta og herfræði

Kimi Räikkönen freistaði þess að stoppa aðeins einu sinni til dekkjaskipta en það bitnaði illa á honum á síðustu fimm hringjunum eða svo er hann hrapaði úr öðru sæti í það sjötta. Hélt hann því sæti þótt hann skytist inn að bílskúr til dekkjaskipta á næstsíðasta hring. Á nýjum dekkjum setti hann besta brautartíma kappakstursins á lokahringnum.

Liðsfélaga Räikkönens, Romain Grosjean, farnaðist betur. Eftir misheppnaða tímatöku hóf hann keppni í 17. sæti en varð þriðji og komst því á verðlaunapall þriðja mótið í röð.

Ef undan er skilið keppnin um toppsætið þá einkenndist kappaksturinn af fjörlegri stöðubaráttu frá upphafi til enda. Komu ökumenn misvel frá því og deginum í dag vill Fernando Alonso hjá Ferrari eflaust gleyma strax. Átti hann í mesta basli og hafði legnst af lítið í bíla á borð við Toro Rosso, Sauber og Williams að gera. Hafnaði hann í ellefta sæti.

Samstuð á fyrstu metrum

Þess ber þó að geta, að í ræsingunni skemmdist framvængur Alonso er hann rak sig utan í Webber sem hafði í fyrstu beygju rekist utan í Räikkönen. Fyrir bragðið varð Alonso að skipta um trjónu í lok fyrsta hrings, en eftir það varð hann að vinna sig úr 20. sæti.

Á sama tíma og Räikkönen, Webber og Alonso þráttuðu um stöðu komst Vettel á öruggan sjó af ráspól. Til að standa betur að vígi gegn keppinautunum tók hann það til bragðs að losa sig við mjúku dekkin og skipta yfir á þau harðari í lok annars hrings. Féll við það niður í 17. sæti en vann sig jafnt og þétt fram á við og eftir að Webber var úr leik var eftirleikurinn auðveldur.

Red Bull heimsmeistari bílsmiða fjórða árið í röð

Fyrir utan að Vettel landaði titil ökumanna vann Red Bull í dag fjórða heimsmeistaratitil bílsmiða í röð. Hefur Red Bull 470 stig þegar þrjú mót eru eftir, í öðru sæti er Mercedes með 313, í þriðja Ferrari með 309 og í fjórða Lotus með 285 stig. Tók Mercedes fram úr Ferrari að þessu sinni. Í næstu sætum eru McLaren með 93 stig, Force India með 68, Sauber með 45, Toro Rosso með 32 og Williams með eitt stig.

Í keppni ökumanna hefur Vettel hlotið  322 stig, annar er  Alonso með 207, en hann fékk engin stig í dag en Vettel 25 fyrir sigurinn. Í þriðja sæti er Räikkönen með 183 stig, fjórða Hamilton með 169, í fimmta sæti Webber með 148, í sjötta sæti Rosberg með 144, og í sjöunda sæti Grosjean með 102 stig og í áttunda Massa með sömu stigatölu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert