Mark Webber hjá Red Bull, maðurinn sem keppir á morgun hinsta sinni í formúlu-1, ók hraðast á lokaæfingunni fyrir tímatökuna í Sao Paulo í Brasilíu. Í næstu sætum urðu Lotusfélagarnir Romain Grosjean og Heikki Kovalainen.
Eins og í gær var rigning alla æfinguna, og jafnvel meiri en í gær. Létu ökumenn margir nokkra hringi duga. Webber var að lokum 0,304 sekúndum hraðskreiðari en Grosjean sem var svo 0,4 sekúndum á undan Kovalainen.
Finnskur ökumaður varð einnig í fjórða sæti, Valtteri Bottas hjá Williams, sem var 91 þúsundasta úr sekúndu frá tíma landa síns.
Fyrsta tuginn fylltu svo Nico Hülkenberg hjá Sauber, Jean-Eric Vergne hjá Toro Rosso, Esteban Gutierrez hjá Sauber, Pastor Maldonado hjá Williams og Force India ökumennirnir Paul di Resta og Adrian Sutil.
Ökumenn Mercedes, sem voru í fremstu röð í gær - Nico Rosberg reyndar fljótastur á báðum æfingum - voru aftarlega. Lewis Hamilton í ellefta sæti og Rosberg hirti ekki um að aka tímahring vegna aðstæðna. Það gerðu heldur ekki Ferrarimennirnir Fernando Alonso og Felipe Massa né Jenson Button hjá McLaren.
Þá setti Sebastian Vettel hjá Red Bull aðeins 17. besta tíma, var heilum fjórum sekúndum lengur með hringinn en Webber.