Damon Hill, heimsmeistari ökumanna í formúlu-1 árið 1996, veðjar á að landi hans Lewis Hamilton vinni titilinn í ár og þá öðru sinni. Hill varar þó Hamilton við því að vanmeta liðsfélaga sinn, Nico Rosberg.
„Lewis hefur mikinn meðbyr í ár. Þótt sú ákvörðun hans að fara frá McLaren til Mercedes virtist góð þá er hún í dag eins og meistarabragð af hans hálfu. Vísbendingar eru um að Mercedesliðið sé það öflugasta. En ég vara þó Lewis við því að vanmeta Nico,“ hefur breska blaðið The Daily Mail eftir Hill.
Hill sagðist heldur ekki vilja afskrifa Sebastian Vettel jafnvel þótt Red Bull hafi átt sérdeilis brösuga bílprófanadaga undanfarið. „Þeir gætu átt eftir að koma mest á óvart. Á óvart kemur að þeir eru eins og sært dýr og virðast úr leik sem stendur, en ég er viss um að þeir eru það ekki. Þeir munu eiga á brattann að sækja til að draga hin liðin uppi en ég myndi ekki afskrifa Vettel í titilslagnum. Nei, alls ekki,“