Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna Malasíukappaksturinn og voru yfirburðir hans gríðarlegir. Liðsfélagi hans Nico Rosberg varð annar en komst aldrei í tæri og mátti hafa sig allan við að verjast Sebastian Vettel hjá Red Bull til að halda öðru sætinu.
Ólíkt tímatökunni í gær fór kappaksturinn fram í þurrki og lengst af var lítið um stöðubreytingar af völdum návígja. Keppnin um einstök sæti varð meiri eftir því sem aftar dró í halarófu keppnisbílanna.
Daniel Ricciardo hjá Red Bull var lengstum í fjórða sæti en glímdi síðan við ítrekaðar tæknibilanir og refsingu og neyddist á endanum til að gefast upp. Áður en að því kom hafði Fernando Alonso hjá Ferrari löngum blásið niður um hálsmál hans.
Vart var Alonso laus við Ricciardo er hann fann sig í baráttu um fjórða sætið við Nico Hülkenberg sem beitti allt annarri herfræði en aðrir og tók aðeins tvö dekkjastopp. Á endanum og gatslitnum dekkjum gat hann ekki varist atlögum Alonsos sem stuttu áður hafði skotist inn að bílskúr og fengið ný dekk.
Jenson Button hjá McLaren vann sig upp um fjögur sæti og hafnaði í sjötta sæti í endamarki. Fyrir aftan hann háðu Williamsfélagarnir Felipe Massa og Valtteri Bottas rimmu og lauk henni tæpast í endamarkinu. Má búast við rifrildi inni í bílskúr þegar farið verður yfir kappaksturinn þar á eftir því Massa óhlýðnaðist ítrekað fyrirmælum um að hleypa Bottas fram úr svo hann gæti á mun hraðskreiðari bíl lagt til atlögu við Button.
Massa verður með fyrirslátt
„Massa mun segja að hann hafi ekki heyrt vel í talstöðinni, hún hafi brugðist honum,“ sagði Jacques Villeneuve, fyrrverandi heimsmeistari með Williams og þulur í útsendingu frönsku stöðvarinnar Canal+. Hann kann brögðin kappinn sá og hló við er hann sagðist vita hvað gerast mundi í bílskúr síns gamla liðs.
Annað athyglisvert einvígi síðustu 10 hringina eða svo var rimma Romains Grosjeans hjá Lotus og Kimis Räikkönens hjá Ferrari um ellefta sætið. Hafði Grosjean betur gegn sínum gamla félaga en vegna glímu þessarar slapp Daniil Kvyat hjá Toro Rosso úr klóm þeirra og hélt tíunda og síðasta stigasætinu.
Vettel aftur í toppslaginn
Gæfa Vettels var allt önnur í dag en í fyrsta móti ársins er hann féll úr leik í byrjun vegna vélarbilunar. Á innhring í Sepang ávarpaði hann við liðsmenn sína í talstöðinni og sagði: „Takk fyrir vel útfærðan kappakstur, drengir. Við erum ekki ennþá þar sem við viljum vera. En við komumst þangað.“