25. sigur Lewis Hamilton

Lewis Hamilton var í þessu að vinna breska kappaksturinn öðru sinni á ferlinum. Er það fimmti mótssigur hans í ár og sá 25. á ferlinum. Annar í mark varð Valtteri Bottas hjá Williams sem er persónulegt met. Þriðji varð Daniel Ricciardo hjá Red Bull.

Kappaksturinn var stöðvaður á fyrsta hring eftir hrikalega harðan skell Kimi Räikkönen hjá Ferrari (sjá myndband neðst í fréttinni). Til marks um öryggi formúlubílanna var ökklatognun sögð einu meiðsli hans. Keppnin hófst loks klukkustund seinna og snerist fljótt upp í einvígi Mercedesmannanna Hamiltons og Nico Rosberg.

Sá síðarnefndi hafði ætíð nokkurra sekúndna forskot og spennan komst í algleymi er Hamilton ákvað að svara með nýrri keppnisáætlun, stoppa aðeins einu sinni til dekkjaskipta en Rosberg þurfti að stoppa a.m.k. tvisvar.

Aldrei fór svo að áhorfendur fengju að sjá hvernig úr herfræðinni raknaði því skömmu eftir  stop Hamiltons um miðbik kappakstursins byrjaði gírkassi Rosberg að bila. Dugði hann þó í nokkra hringi en gaf sig svo endanlega þegar um þriðjungur vegalengdarinnar var eftir.

Bottas á siglingu

Eftirleikur var auðveldur fyrir Hamilton og forskotið það mikið á aðra að hann fór í öryggisskyni inn að bílskúr Mercedes og fékk ný dekk þegar nokkrir hringir voru eftir. Hann hafði ekki hrósað sigri í Silverstone frá árinu 2008.

Í fjórða sæti varð annar heimamaður, Jenson Button á McLaren. Er það jafnbesti árangur hans í Silverstone frá upphafi ferilsins árið 2000.

Bottas er á mikilli siglingu því Finninn ungi hjá Williams komst í fyrsta sinn á verðlaunapall í formúlu-1 fyrir hálfum mánuði. Varð þá  þriðji en einu sæti framar nú. Árangurinn í dag er einkar athyglisverður í ljósi þess að Bottas hóf keppni í 14. sæti.

Óþarfa væl í Vettel

Margar og langar rimmur áttu sér stað í kappakstrinum og kom Fernando Alonso hjá Ferrari við sögu í tveimur þeirra. Í fyrra skiptið eltist hann við Button en komst aldrei nógu langt til að taka fram úr.  Síðari rimmuna - og hana all miklu harkalegri og tilfinningaþrungnari - háði hann við Sebastian Vettel og stóð hún í á annan tug hringja.

Hring eftir hring varðist Alonso atlögum Vettels sem virtist þola illa mótlætið og kvartaði ítrekað hástöfum í talstöðina, í þeim tilgangi að fá dómara kappakstursins til að refsa Alonso. Lengi framan af var ekkert að athuga við varnir hans en kannski má segja að hann hafi í lok rimmunnar beitt of mikilli hörku því Vettel virtist þá eiga meira eftir af dekkjunum. 

En svona keppni vilja áhorfendur að fá og óþarfi hjá ökumönnum að væla þótt eitthvað hitni þeim í sætinu við bardagann.

Ef útnefna skal mann dagsins þarf að gera upp á milli Bottas og Alonso og þrátt fyrir hinn norræna vinkil vel ég Alonso sakir frábærrar framúrtöku hvað eftir annað.

Titilkeppnin galopnast

Með sigri Hamiltons og brottfalli Rosberg hefur keppni þeirra um heimsmeistaratitil ökumanna galopnast á ný. Munar aðeins fjórum stigum en fyrir kappaksturinn munaði 25 stigum. Hamilton hefur unnið 5 mót í ár og Rosberg fjögur en hann féll nú úr leik í fyrsta sinn á árinu; hafði verið í fyrsta eða öðru sæti í mótunum átta þar til í dag. Hamilton hefur aftur á móti fallið tvisvar úr leik en verið fyrstur eða annar í öllum öðrum mótunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert