25. sigur Lewis Hamilton

Lew­is Hamilt­on var í þessu að vinna breska kapp­akst­ur­inn öðru sinni á ferl­in­um. Er það fimmti móts­sig­ur hans í ár og sá 25. á ferl­in­um. Ann­ar í mark varð Valtteri Bottas hjá Williams sem er per­sónu­legt met. Þriðji varð Daniel Ricciar­do hjá Red Bull.

Kapp­akst­ur­inn var stöðvaður á fyrsta hring eft­ir hrika­lega harðan skell Kimi Räikkön­en hjá Ferr­ari (sjá mynd­band neðst í frétt­inni). Til marks um ör­yggi formúlu­bíl­anna var ökkla­togn­un sögð einu meiðsli hans. Keppn­in hófst loks klukku­stund seinna og sner­ist fljótt upp í ein­vígi Mercedes­mann­anna Hamilt­ons og Nico Ros­berg.

Sá síðar­nefndi hafði ætíð nokk­urra sek­úndna for­skot og spenn­an komst í al­gleymi er Hamilt­on ákvað að svara með nýrri keppnisáætl­un, stoppa aðeins einu sinni til dekkja­skipta en Ros­berg þurfti að stoppa a.m.k. tvisvar.

Aldrei fór svo að áhorf­end­ur fengju að sjá hvernig úr herfræðinni raknaði því skömmu eft­ir  stop Hamilt­ons um miðbik kapp­akst­urs­ins byrjaði gír­kassi Ros­berg að bila. Dugði hann þó í nokkra hringi en gaf sig svo end­an­lega þegar um þriðjung­ur vega­lengd­ar­inn­ar var eft­ir.

Bottas á sigl­ingu

Eft­ir­leik­ur var auðveld­ur fyr­ir Hamilt­on og for­skotið það mikið á aðra að hann fór í ör­ygg­is­skyni inn að bíl­skúr Mercedes og fékk ný dekk þegar nokkr­ir hring­ir voru eft­ir. Hann hafði ekki hrósað sigri í Sil­verst­one frá ár­inu 2008.

Í fjórða sæti varð ann­ar heimamaður, Jen­son Butt­on á McLar­en. Er það jafn­besti ár­ang­ur hans í Sil­verst­one frá upp­hafi fer­ils­ins árið 2000.

Bottas er á mik­illi sigl­ingu því Finn­inn ungi hjá Williams komst í fyrsta sinn á verðlaunap­all í formúlu-1 fyr­ir hálf­um mánuði. Varð þá  þriðji en einu sæti fram­ar nú. Árang­ur­inn í dag er einkar at­hygl­is­verður í ljósi þess að Bottas hóf keppni í 14. sæti.

Óþarfa væl í Vettel

Marg­ar og lang­ar rimm­ur áttu sér stað í kapp­akstr­in­um og kom Fern­ando Alon­so hjá Ferr­ari við sögu í tveim­ur þeirra. Í fyrra skiptið elt­ist hann við Butt­on en komst aldrei nógu langt til að taka fram úr.  Síðari rimm­una - og hana all miklu harka­legri og til­finn­ingaþrungn­ari - háði hann við Sebastian Vettel og stóð hún í á ann­an tug hringja.

Hring eft­ir hring varðist Alon­so at­lög­um Vettels sem virt­ist þola illa mót­lætið og kvartaði ít­rekað há­stöf­um í tal­stöðina, í þeim til­gangi að fá dóm­ara kapp­akst­urs­ins til að refsa Alon­so. Lengi fram­an af var ekk­ert að at­huga við varn­ir hans en kannski má segja að hann hafi í lok rimm­unn­ar beitt of mik­illi hörku því Vettel virt­ist þá eiga meira eft­ir af dekkj­un­um. 

En svona keppni vilja áhorf­end­ur að fá og óþarfi hjá öku­mönn­um að væla þótt eitt­hvað hitni þeim í sæt­inu við bar­dag­ann.

Ef út­nefna skal mann dags­ins þarf að gera upp á milli Bottas og Alon­so og þrátt fyr­ir hinn nor­ræna vink­il vel ég Alon­so sak­ir frá­bærr­ar framúr­töku hvað eft­ir annað.

Titil­keppn­in gal­opn­ast

Með sigri Hamilt­ons og brott­falli Ros­berg hef­ur keppni þeirra um heims­meist­ara­titil öku­manna gal­opn­ast á ný. Mun­ar aðeins fjór­um stig­um en fyr­ir kapp­akst­ur­inn munaði 25 stig­um. Hamilt­on hef­ur unnið 5 mót í ár og Ros­berg fjög­ur en hann féll nú úr leik í fyrsta sinn á ár­inu; hafði verið í fyrsta eða öðru sæti í mót­un­um átta þar til í dag. Hamilt­on hef­ur aft­ur á móti fallið tvisvar úr leik en verið fyrst­ur eða ann­ar í öll­um öðrum mót­un­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert