Lewis Hamilton er ekki mikill liðsmaður og gagnrýndi stjórnendur Mercedesliðsins fyrir að biðja sig að hleypa Nico Rosberg fram úr í kappakstrinum í Búdapest.
Rosberg átti eftir að fara inn að bílskúr í dekkjastopp en Hamilton ekki. Neitaði hann að hleypa liðsfélaga sínum fram úr og því er haldið fram, að það hafi ef til vill kostað Mercedes sigur í kappakstrinum, slíkur var hraði Rosberg á nýlegum dekkjum á lokahringjunum er hann dró fremstu menn uppi.
„Ég hefði tapað stigum til Nico,“ sagði Hamilton er hann var spurður hvers vegna hann hafi neitað að víkja fyrir Rosberg.
„Hefði ég vikið þegar um var beðið hefði ég tapað stigum. Ég ætla að tala um þetta við alla í liðinu. Og ég er ánægður með að hafa haldið mínu striki. Þegar öllu er á botninn hvolft er ég að keppa fyrir sjálfan mig, ekki fyrir hann,“ bætti Hamilton við.