Daniel Ricciardo hjá Red Bull var í þessu að vinna belgíska kappaksturinn og það með glæsibrag. Mercedesliðið spilaði út öllum sínum herfræðitrompum í skyni að vinna Nico Rosberg fram úr en tókst ekki. Þriðji varð Valtteri Bottas hjá Williams.
Rosberg hóf keppni af ráspól en féll á fyrstu hundrað metrunum niður í þriðja sæti, missti liðsfélaga sinn Lewis Hamilton og Sebastian Vettel hjá Red Bull fram úr. Á öðrum hring freistaði hann framúraksturs en ekki tókst betur til en svo að hann rak framvæng sinn í vinstra afturdekk Hamiltons sem sprakk.
Við þetta féll Hamilton niður í neðsta sæti og vann sig lítt upp á við eftir það. Í talstöðinni lak af honum fýlan hvað eftir annað og hann vildi hætta. Var loks er sex hringir voru eftir látið eftir honum.
Atvikið kostaði Rosberg sigur því vegna skemmda á vængnum neyddist hann til að taka snemmbært aukastopp og fá nýjan.
Fljótlega kvað að Ricciardo og var hann maðurinn sem aðrir þurftu að leggja til að eygja sigur. Hélt með afbrigðum vel á spöðunum og vann örugglega sigur þótt Rosberg nálgaðist óðfluga á síðustu kílómetrunum. Freistaði Mercedesliðið meðal annars að skipta eina ferðina enn um dekk seint í kappakstrinum en þótt Rosberg nálgaðist hratt vantaði hann tvo til þrjá hringi til viðbótar til að eiga möguleika á að komast fram úr.
Kimi missti af meti
Á síðasta þriðjungi kappakstursins hafði Kimi Räikkönen unnið sig upp í þriðja sæti og virtist ætla hafna á verðlaunapalli í fyrsta sinn frá í fyrra. Með því hefði hann sett met í formúlu-1 því það hefði orðið 29. skiptið sem hann klárar keppni í þriðja sæti. Engum öðrum hefur tekist það.
En landi hans Valtteri Bottas hjá Williams var ekki á því að færa Räikkönen neinar gjafir og vann sig fram úr er fimm hringir voru eftir. Er það fjórða pallsæti Bottas á árinu. Räikkönen getur engu að síður verið sáttur því hann varð fjórði, eða tveimur sætum betra en hann hafði best náð í ár fram að Spa.
Kappaksturinn í Spa var býsna sviptingasamur og harður slagur um hvert sæti. Í lokin dró til skemmtilegrar rimmu ökumanna McLaren, Vettels og Alonso um fimmta sætið. Tókst Kevin Magnussen hinum danska nýliða ekki að verja það eftir hverja atlöguna af annarri frá Alonso, Vettel og Jenson Button. Varð hann sjötti en verið getur að hann eigi eftir að bíta úr nálinni fyrir grófar varnir þar sem hann m.a. neyddi Alonso út úr brautinni oftar en einu sinni, m.a. á yfir 300 km hraða.
Rosberg með 29 stiga forystu
Með úrslitunum í Spa jók Rosberg forystu sína á Hamilton í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna úr 11 stigum í 29. Er hann með 220 stig en Hamilton sem engan afla fékk í dag með 191.
Mercedesmennirnir verða annars að fara vara sig á Ricciardo því hann er þriðji með 156 stig. Með sigri í þremur mótum af síðustu sex hefur hann staðið sig betur en bæði Rosberg og Hamilton. Hefur Rosberg og aðeins unnið einu móti fleira en Ricciardo en ólíkt Ástralanum hefur Rosberg aldrei unnið tvö mót í röð. Það afrekaði Ricciardo í Spa og í Búdapest. Sigur hans í dag markaði jafnframt 50. sigur Red Bull í formúlu-1 kappakstri.