Lewis Hamilton var í þessu að vinna ítalska kappaksturinn í Monza. Mercedes fagnaði tvöföldum sigrinum því Nico Rosberg varð annar. Felipe Massa komst í fyrsta sinn á verðlaunapall sem ökumaður Williams en hann varð þriðji í mark.
Þetta var 28. mótssigur Hamiltons sem hóf keppni af ráspól en tók illa af stað og var aðeins fjórði út úr fyrstu beygju. Meðan hann var fastur fyrir aftan Massa og Kevin Magnussen hjá McLaren í nokkra hringi tókst Rosberg að byggja sér upp vænlegt forskot.
Verulega skrapp bilið saman þó nokkrum hringjum seinna er Rosberg klúðraði á bremsusvæðinu fyrir fyrstu beygju hringsins og varð að fara flóttaleið. Hið sama gerðist í ibyrjun 29. hrings af 53 og hafði Hamilton þá sótt það mikið á að mistök Rosberg urðu til þess að hann missti forystuna í hendur liðsfélaga síns.
Yfirburðir Mercedesmanna voru miklir og engir komust í tæri við þá. Bottast nýttist ekki þriðja sætið á rásmarki því hann tók illa af stað og lokaðist inni í þvögunni og kom í 10. eða 11. sæti út úr fyrstu beygju. Með yfirburða hraðskreiðan bíl samanborið við flesta aðra tók hann hvað eftir annað fram úr og vann sig upp í fjórða sætið.
Sá ávinningur fór að miklu leyti forgörðum í illa tímasettu dekkjastoppi því hann féll við það aftur niður í áttunda til níunda sæti og þurfti að endurtaka allt erfiðið. Vann hann sig smám saman aftur upp í fjórða sætið.
Magnussen var í öðru sæti á fyrstu hringjunum en endaði í tíunda sæti, þar af missti hann nokkur sæti er honum var refsað fyrir að stanga Bottas úr brautinni með því að 5 sekúnudm var bætt við aksturstíma hans.
Keppnin var lítil um sigur í kappakstrinum, Hamilton hafði hann í hendi sér eftir að hann komst fram úr Rosberg sem þurfti að spara bæði dekk og bensín til að komast í mark. Barátta var hins vegar mikil um sæti fjögur til tíu og miklar sviptingar kappaksturinn út í gegn.
Daniel Ricciardo hjá Red Bull klúðraði einnig ræsingunni og féll úr hópi tíu fremstu. Hann vann sig hins vegar jafnt og þétt upp á við og sýndi nokkrum sinnum frábæra færni við framúrakstur. Síðasta fórnarlamb hans var liðsfélaginn Sebastian Vettel. Urðu þeir í fimmta og sjötta sæti í mark.
Í síðustu fjórum stigasætunum urðu svp Sergio Perez hjá Force India, Jenson Button hjá McLaren, Kimi Räikkönen hjá Ferrari og Magnussen í því tíunda en hann féll niður um nokkur sæti við tímaviðbótina.
Meðal helstu tíðinda var að Fernando Alonso hjá Ferrari féll úr leik vegna vélarbilunar. Verður að fara nokkur ár aftur í tímann til að finna brottfall hjá honum.
Hamilton saxar aftur á Rosberg
Með sigrinum saxaði Hamilton sem nemur 7 stigum á forskot Rosberg í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Er með 216 gegn 238 stigum Rosberg. Riddiardo er þriðji með 166 stig og Bottas komst upp fyrir Alonso og er nú í fjórða sæti með 122 stig. Alonso er með 121 og Vettel 106 stig í sjötta sæti.
Í keppni liðanna bætti Mercedes enn frekar við forskot sitt og er með 454 stig gegn 272 stigum Red Bull, 177 stigum Williams og 162 stigum Ferrari sem er í fjórða sæti. Í fimmta er McLaren með 110 stig og sjötta Force India með 109 stig.