Nico Rosberg hefur líklega aldrei sýnt eins góða frammistöðu og er hann fór með sigur af hólmi í brasilíska kappakstrinum. Linnulaust álag frá liðsfélaga hans, Lewis Hamilton, bugaði hann ekki að þessu sinni. Sýndi Rosberg mikinn styrk þegar mest á reið.
Slagur þeirra Mercedesfélaganna var þrunginn háspennu frá fyrsta hring til þess síðasta, en auk þess voru háðar skemmtilegar návígisglímur um mörg önnur sæti svo áhorfendur fengu mikið fyrir aurinn.
Þetta var fimmti sigur Rosberg á árinu og sá 15. sem kemur í hlut Mercedes þar sem Hamilton hefur unnið 10 mót. Þar með jafnar Mercedes met McLaren og Ferrari sem hvort um sig hafa áður unnið 15 mót á einni og sömu vertíðinni, þar af Ferrari tvisvar.
Annað met settu þeir með fyrsta og öðru sæti í 11. sinn á árinu, en í síðasta móti jöfnuðu Rosberg og Hamilton met McLaren sem vann á sínum tíma 10 mótssigra með þá Ayrton Senna og Alain Prost sem ökumenn.
Við mikinn fögnuð heimamanna varð Felipe Massa hjá Williams þriðji og komst því á verðlaunapall. Vann hann sig út úr akstursvíti vegna hraðaksturs í bílskúrareininni í fyrsta dekkjastoppi. Liðsfélaga hans Valtteri Bottas vegnaði verr og í stað þess að slást um pallsæti féll niður í tíunda sæti, að hluta til vegna misheppnaðra eða tafsamra dekkjastoppa þar sem m.a. fór mikill tími forgörðum við að festa sætisólar hans.
Jenson Button hjá McLaren ætlar að klára vertíðina á háu nótunum - kannski hans síðustu í formúlu-1 - því hann varð fjórði í mark. Í næstu þremur sætum urðu þrír aðrir fyrrverandi heimsmeistarar, í þessari röð, Sebastian Vettel hjá Red Bull og Ferrarifélagarnir Fernando Alonso og Kimi Räikkönen. Háðu þeir skemmtilega rimmu nokkra hringi undir lokin og virtist Räikkönen ætla vinna Alonso í fyrsta sinn á vertíðinni. Það gekk þó ekki eftir, Finnanum eflaust til vonbrigða.
Í þremur síðustu stigasætunum urðu svo Nico Hülkenberg hjá Force India, Kevin Magnussen hjá McLaren og Bottas.
Með sigri Rosberg er á hreinu að einvígi þeirra Rosberg um heimsmeistaratitil ökumanna ræðst ekki fyrr en í lokamótinu, í Abu Dhabi eftir hálfan mánuð. Þar fær fyrsti maður 50 stig og sá næsti 36. Sigri Rosberg þar einnig dugar annað sætið Hamilton því hann hefur 17 stigum meira en Rosberg fyrir lokaslaginn, eða 334 stig gegn 317.