Nico Rosberg segir að Mercedesfélagi hans Lewis Hamilton hafi verðskuldað að vinna heimsmeistaratitil ökumanna í ár.
Hamilton náði eldingarviðbragði í kappakstrinum í Abu Dhabi í dag og náði forystu af Rosberg á fyrstu metrunum. Hélt hann henni svo meira og minna í mark og vegna bilana í bíl Rosberg vann hann bæði kappaksturinn og titilinn nokkuð auðveldlega.
Rosberg kom bílnum alla leið í mark þrátt fyrir bilanirnar og lauk keppni í 14 sæti. Hampaði Hamilton tiitlinum með 67 stiga mun á Rosberg en fyrir sigurinn í kappakstrinum í Abu Dhabi hlaut Hamilton 50 stig. Fyrir 14. sæti fékkst hins vegar ekkert stig.
„Heildina á litið þá verðskuldaði Lewis að vinna titilinn,“ sagði Rosberg eftir kappaksturinn. „Ég er mjög svekktur en það sem gekk á hjá mér hafði engin áhrif, breytti engu og því er óþarft að einblína á það.
Hann gerði einfaldlega aðeins betur en ég. Hið jákvæða er að ég hef verið betri í tímatökum undanfarin tvö ár og það gefur mér góðan grunn að vinna á. Ég komst mjög nærri titlinum og það er leitt að ég skyldi ekki ná honum. Ég er stoltur að hafa verið hér með liðinu,“ sagði Rosberg.
Hann viðurkenndi að hafa lengi vel lifað í voninni um að landa titlinum og hét því að klára kappaksturinn ef eitthvað kæmi upp á síðustu stundu. „Ég trúði því lengi. Það var alltaf möguleiki á að eitthvað gengi úrskeiðis í bíl Lewis. Ég gefst aldrei upp og sæki alltaf af hörku og því vildi ég aka alla leið. Keppni okkar um titilinn hefur verið áköf en stórkostleg. Til þess er ég í keppni, fyrir slagi sem þennan. Lewis var bestur og það hefur verið frábært að glíma við hann. Lengstum hefur það verið einstaklega ánægjulegt,“ sagði Rosberg eftir lokamótið í Abu Dhabi.