Mercedesstjórinn Toto Wolff segir að Fernando Alonso hjá McLaren verði fyrsti kostur Mercedesliðsins fyrir árið 2016 takist ekki samningar um áframhaldandi veru Lewis Hamilton hjá liðinu.
Samningur Hamiltons rennur út við lok vertíðar nýhafins árs og hefur bæði hann og fulltrúar Mercedes lýst yfir áhuga á að framlengja hann.
En Wolff vill hafa varann á og geta gripið til ráðstafana fari svo að samningar takist ekki við Hamilton um áframhaldandi dvöl hans hjá Mercedes. Viðræður um framlengingu áttu sér stað sl. sumar en var síðan slegið á frest fram á þetta ár svo Hamilton gæti einbeitt sér að keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, sem hann vann eftir mikið einvígi við liðsfélaga sinn Nico Rosberg fram í lokamót nýliðins ársins.
Um miðbik sumarsins undirritaði Rosberg samning um áframhaldandi vist hjá Mercedes til margra ára.
Wolff segir að Mercedes hafi skoðað bæði Alonso og einnig Valtteri Bottas hjá Williams sem arftaka Hamiltons gangi samningar við hann ekki upp. „Það liggur ekkert á, við munum setjast niður til samninga,“ hefur ítalska íþróttadagblaðið La Gazetta dello Sport eftir Wolff.
„Ég er bjartsýnn [á að Hamilton verði um kyrrt], það er í forgangi að keyra á óbreyttum ökumönnum. Reynist það útilokað yrði Alonso fyrsti kostur og síðan Bottas,“ bætir Wolff við.