Sebastian Vettel var í þessu að vinna öruggan sigur í Malasíukappakstrinum en sigurinn á hann fyrst og fremst snilldar herfræði að þakka. Enda þakkaði hann af taumlausri gleði á innhringnum í kappaksturslok.
Að sama skapi má segja að Mercedesliðið hafi steinlegið á keppnisáætlunum sínum. Lykilinn að ósigri Mercedes var sá að kalla báða bílana inn þegar öryggisbíll var kallaður út í brautina eftir nokkra hringi er Marcus Ericsson á Sauber hafnaði út í malargryfju.
Vettel ásamt nokkrum öðrum kaust að stoppa ekki til dekkjaskipta svo snemma en fyrir bragðið voru Lewis Hamilton og Nico Rosberg nær miðjum hópi þegar þeir komu út úr fyrsta dekkjastoppinu. Sama hvað reynt var, ekkert dugði til að draga Vettel uppi og svaraði hann sjálfur glæsilega þegar mest reyndi á og kláraði sitt síðasta stopp fyrir framan nefið á Rosberg. Með því voru úr sögunni möguleikar Mercedes að hreppa fyrsta sætið af Vettel.
Þetta var fyrsti sigur Ferrari í tvö ár og fjórði sigur Vettels í Sepang, en þar hrósaði hann sigri sem ökumaður Red Bull 2010, 2011 og 2013. Ferrari staðfesti síðan gríðarlegar framfarir frá í fyrra með fjórða sæti Kimi Räikkönen sem á tíma var með öftustu mönnum þar sem vinstra afturdekk sprakk á fyrsta hring. Tapaði hann miklum tíma og mörgum sætum á löngum innhring til dekkjaskipta.
Víst má telja að sigur Vettels verði sem risastór vítamínssprauta á Ferrariliðið sem stokkað hefur gríðarlega upp í starfsemi sinni frá í fyrra og pumpað 100 milljónum evra til viðbótar í starfsemina til að komast á toppinn á ný.
Kappaksturinn var bæði spennandi og sviptingasamur, fyrir utan spennuna um hvrot Vettel héldi út var slegist um flest stigasæti, og jafnvel aftar, kappaksturinn út í gegn. Ólíkt skemmtilegri og fjörlegri kappakstur en mótið í Melbourne fyrir hálfum mánuði.