Ekkert varð úr einvíginu milli ökumanna Mercedes sem vænta þótti meiga á lokahringjunum. Lewis Hamilton hafði undirtökin og átti svar við öllum brellum Nico Rosberg.
Hamilton vann sinn fjórða sigur í Montreal og sinn fjórða sigur á árinu, en jafnframt var þetta 37. sigurinn sem hann vinnur í formúlu-1 kappakstri frá því hann hóf keppni árið 2007.
Valtteri Bottas hjá Williams varð þriðji eftir herfræðilegt uppgjör við landa sinn Kimi Räikkönen hjá Ferrari og er það besti árangur Williamsliðsins á árinu. Tvisvar hefur Bottas verið fjórði í mark í ár og Felipe Massa einu sinni en hann varð sjötti í mark eftir að hafa hafið keppni við afturenda rásmarksins.
Räikkönen varð fjórði, sæti aftar en hann lagði af stað úr. Liðsfélagi hans Sebastian Vettel skaust með vel útfærðri keppnisáætlun úr 18. sæti í það fimmta.