Nico Rosberg hjá Mercedes fór með sigur af hólmi í austurríska kappakstrinum sem var að ljúka. Framkvæmdi hann meistarastykki í ræsingunni er hann rauk fram úr liðsfélaga sínum Lewis Hamilton en eftir það var honum aldrei ógnað.
Rosberg vann þar með annað árið í röð í Spielberg í Austurríki og sinn þriðja sigur á árinu i fjórum mótum; hina fyrri vann hann í Barcelona og Mónakó. Hann gat ekki leynt né hamið gleði sína er hann steig upp úr bílnum að keppni lokinni enda hafði titringur hrellt hann síðustu fimm hringina eða svo. Andaði Rosberg því léttar er í mark kom.
Klúður hjá Ferrari í dekkjastoppi Sebastians Vettel varð til þess að gera keppnina um þriðja sætið spennandi milli Felipe Massa hjá Williams og Vettels. Massa komst fram úr í stoppunum og þrátt fyrir harða sókn Vettels undir lokin átti hann svör við atlögum hans og vann í fyrsta sinn á árinu sæti á verðlaunapalli. Tók það vélvirkja Ferrari 13 sekúndur að skipta um dekk hjá Vettel í stað tæplega þriggja sekúndna.
Hamilton þarf ekki að örvænta vegna annars sætisins og hann var nógu langt á undan Massa og Vettel til að vera ekki ógnað þrátt fyrir að fimm sekúndna tíma væri bætt við lokatíma hans. Þá refsingu fékk hann fyrir einbeitingarleysi á leið út eftir dekkjaskipti, en í lok bílskúrareinarinnar missti hann bílinn út yfir línuna sem skilur á milli reinarinnar og brautarinnar. Slíkt hefur í för með sér sjálfkrafa refsingu.
Betur fór en á horfðist
Mikil heppni var að enginn slasaðist er Fernando Alonso hjá McLaren og Kimi Räikkönen hjá Ferrari skullu saman á fyrsta hring. Skreið bíll Alonso upp á Ferrarifákinn og þannig runnu þeir eftir öryggisgirðingu, bíll Alonso ætíð aðeins nokkra tugi sentímetra frá höfuðhjálmi finnska ökumannsins.
Var þetta fjórði kappaksturinn í röð sem Alonso fellur úr leik sem er met á keppnisferli hans í formúlu-1. Liðsfélagi hans Jenson Button var kallaður inn og beðinn að hætta vegna bilunar í vélkerfum bílsins. Er það annað mótið í röð sem báðir bílar McLaren falla úr leik vegna bilana.
Eina ferðina enn dugði ráspóll ökumanni ekki til sigurs í austurríska kappakstrinum. Í níu mótum hefur ráspólshafi komið fimm sinnum í öðru sæti í mark en því fyrsta.