Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna sigur í breska kappakstrinum eftir miklar sviptingar þar sem rigning kom meðal annars við sögu og sókndjörf herfræði. Er þetta í þriðja sinn sem hann hrósar sigri á ferlinum á heimavelli í Silverstone.
Í öðru sæti varð liðsfélagi Hamiltons, Nico Rosberg, og þriðji Sebastian Vettel hjá Ferrari en þegar um 15 hringir voru eftir var ekkert útlit fyrir að hann kæmist í tæri við verðlaunapall. Misjafnlega vel eða illa útfærðar keppnisáætlanir þegar rigning tók að falla á brautina stokkuðu röð ökumanna verulega upp á þessu tímabili.
Lengi framan af voru Williamsbílarnir í forystu, Felipe Massa á undan og Valtteri Bottas annar. Unnu þeir sig fram úr bílum Mercedes í ræsingunni en þegar á reyndi klikkaði herfræði Williams hrapallega, með þeim afleiðingum að Massa varð fjórði í mark og Bottas naumlega fimmti.
Sviptingarnar, spennan vegna návígja og tvísýnan í keppninni gerði það að verkum að breski kappaksturinn er eflaust sá besti það sem af er vertíðar. Hamilton virtist lengi ætla verða í þriðja sæti en komst í forystu á djarfri herfræði og hélt sínu þótt svo virtist sem hann væri að tapa kappakstrinum við seinni rigningarskúrina, en þá hafði Rosberg dregið hann uppi á örskotsstundu enda dekk Hamiltons alveg úr sér gengin.
En Rosberg var á þurrdekkjum og gat ekki beitt sér sem skyldi í vaxandi bleytu og kom út úr sínu seinna dekkjastoppi rétt á eftir Hamilton.
Vettel fagnaði afar kátur þriðja sætinu en liðsfélagi hans Kimi Räikkönen var fyrstur til að skipta yfir á millidekk, líklega alltof snemma því vætan var ekki nógu mikil og komu dekkin því ekki að notum. Seig hann meira aftur úr ef eitthvað var og missti menn fram úr sér. Svo þegar seinni skúrin kom var þessi dekkjagangur hans ónýtur og varð hann því að koma enn einu sinni enn og skipta um dekk þegar fjórir hringir voru eftir. Dugði honum það til að halda áttunda sæti en lengst af var Räikkönen í fimmta sæti.
Þetta er í níunda sinn í röð sem Mercedes á báða ökumenn á verðlaunapalli, sem er met í formúlu-1. Gamla metið átti Ferrari, frá því fyrir hálfri öld eða svo. Sigur Hamiltons er sá fimmti á árinu í níu mótum og styrkir hann enn stöðu sína í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.
Fernando Alonso hjá McLaren hefur þrátt fyrir allt mótlætið ástæðu til að gleðjast eftir breska kappaksturinn því þar vann hann sín fyrstu keppnisstig á vertíðinni með því að koma í mark í tíunda sæti. Liðsfélagi hans Jenson Button féll úr á fyrsta hring er ekið var utan í bíl hans.
Næsti kappakstur fer fram í Búdapest í Ungverjalandi eftir þrjár vikur.