Hamilton færist nær titlinum

Lewis Hamilton eins og rússneskur kósakki á verðlaunapallinum í Sotsjí.
Lewis Hamilton eins og rússneskur kósakki á verðlaunapallinum í Sotsjí. mbl.is/afp

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna rússneska kappaksturinn. Erfði hann forystun frá félaga sínum Nico Rosberg sem féll úr leik á fimmta hring vegna brotins bremsufetils.

Með sigrinum má segja að Hamilton sé kominn með fast tak á heimsmeistaratitli ökumanna því hann hefur 66 stiga forskot á Sebastian Vettel hjá Ferrari sem varð annar í dag og komst upp fyrir Rosberg að stigum. Munar nú 73 stigum á Mercedesfélögunum, Hamilton er með 302 stig, Vettel 236 og Rosberg 299 þegar aðeins fjögur mót eru eftir.

Til þess að vinna titilinn eftir þennan níunda sigur á árinu þarf Hamilton aðeins níu stigum meira en Vettel og tveimur meira en Rosberg. Gæti titilinn því allt eins unnist í næsta móti, bandaríska kappakstrinum í Austin.

Í þriðja sæti í dag og í fimmta sinn á verðlaunapalli á ferlinum í formúlu-1 varð Sergio Perez hjá Force India. Háði hann mikla rimmu um þriðja sætið við Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Valtteri Bottas hjá Williams og Kimi Räikkönen hjá Ferrari. Greip Perez gæsina er bauðst þegar Räikkönen keyrði utan í landa sinn Bottas. Rétt áður höfðu báðir skotist fram úr Perez sem þá var orðinn fimmti. Við samstuðið féll Bottast niður í tólfta sæti úr því þriðja og Räikkönen í það fimmta, missti bæði Perez og Felipe Massa fram úr sér á lokametrunum.

Keppnin um fyrsta sætið varð að engu þegar bremsurnar biluðu hjá Rosberg en slagur stóð um næstu sæti. Réðst keppnin að nokkru á mismunandi herfræði, en slíka útfærði Felipe Massa hjá Williams best með því að vinna sig upp í fjórða sæti úr því fimmtánda á rásmarki.

Báðir McLaren með stig

Hjá McLaren ríkir eflaust fagnaður í dag því Jenson Button og Fernando Alonso skiluðu sér báðir í mark í stigasæti, Button í því níunda og Alonso í tíunda. Fyrirfram var talið að eiginleikar brautarinnar hentuðu ekki bílum liðsins.

Með öðru og fimmta sæti í mark - og þó aðallega vegna brottfalls Rosberg - sáu Ferrarifélagarnir Vettel og Kimi Räikkönen til þess að Mercedesliðið fagnar ekki titli bílsmiða strax. Minnkaði meir að segja bilið milli liðanna, úr 169 stigum í 165 en Mercedes hefur landað 531 stigi en Ferrari 365.

Harðir skellir

Stærsta augnablik kappakstursins í Sotsjí var án efa brottfall Rosberg en tveir árekstrar settu þó mark sitt á hann einnig - og ollu því að öryggisbíll var sendur út í brautina. Nico Hülkenberg hjá Force India  og Marcus Ericsson hjá Sauber skullu saman á fyrsta hring eftir að sá fyrrnefndi snarsnerist í beygju. Skemmdust bílarnir og féllu báðir úr leik. 

Í seinna skiptið missti Romain Grosjean vald á Lotusbílnum í hinni löngu hröðu beygju númer þrjú á þrettánda hring. Skall hann á öryggisvegg með miklum tilþrifum og talsverðu bíltjóni. Stóð hann samt hjálparlaust upp úr brakinu. 

Fyrstu þrír menn fagna á verðlaunapallinum í Sotsjí ásamt fulltrúa …
Fyrstu þrír menn fagna á verðlaunapallinum í Sotsjí ásamt fulltrúa Mercedesliðsins. mbl.is/afp
Vladímír Pútín Rússlandsforseti og formúlualráðurinn Bernie Ecclestone fylgjast með kappakstrinum …
Vladímír Pútín Rússlandsforseti og formúlualráðurinn Bernie Ecclestone fylgjast með kappakstrinum í Sotsjí. mbl.is/afp
Brak bíla Nico Hülkenberg hjá Force India og Marcus Ericsson …
Brak bíla Nico Hülkenberg hjá Force India og Marcus Ericsson hjá Sauber flutt af slysstað mbl.is/afp
Á fyrstu metrunum í Sotsjí.
Á fyrstu metrunum í Sotsjí. mbl.is/afp
Sebastian Vettel (t.h.) og Carlos Sainz takast í hendur við …
Sebastian Vettel (t.h.) og Carlos Sainz takast í hendur við upphaf heiðurshrings ökumanna í fyrir kappaksturinn í Sotsjí. mbl.is/afp
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert