Rosberg vann þriðja sinni í röð

Nico Rosberg hjá Mercedes var í þessu að vinna lokamót ársins, í Abu Dhabi. Er það þriðji sigur hans í röð og sá sjötti á árinu. Annar varð félagi hans Lewis Hamilton og þriðji Kimi Räikkönen hjá Ferrari.

Rosberg umbreytti sjötta ráspólnum í röð í þriðja mótssigurinn í röð og það af miklu öryggi. Fagnaði hann vel er hann kom í mark en hann hefur aldrei áður unnið þrjú mót í ár. Alls hefur hann 12 sinnum unnið kappakstur í formúlu-1.

Um tíma leit út fyrir spennandi mótslok er Hamilton baðst undan dekkjaskiptum, vildi taka áhættuna á að keyra alla leið í mark eftir að Rosberg skipti um dekk öðru sinni. Var heimsmeistarinn þá í forystu um skeið. Ítrekaði hann beiðni sína um að fá að halda áfram enda hátt í 20 sekúndum á undan en tæknistjórar hans sögðu meiri líkur en minni á að slíkt veðmál myndi tapast og hann jafnvel missa af pallsæti í leiðinni.

Lét Hamilton undan og kom inn til dekkjaskipta. Ljóst var þó að hann var fúll yfir þessu enda annað mótið í röð sem honum er neitað um að prófa eitthvað nýtt til að hafa sigur. Lét hann það í ljós með ýmsu móti, ekki síst á innhringnum er hann skar beygju og sneiddi rétt framhjá Rosberg án þess svo mikið að veifa honum til hamingju með sigurinn. Ljóst er að Hamilton þolir illa að tapa, alla vega fyrir liðsfélaga sínum og hefur það ætíð lýst sér í skapferli hans.

Segja má að Rosberg hafi lokið vertíðinni á háu nótunum og fer hann inn í veturinn og næsta keppnistímabil uppþemdur af áhuga. Spurning hvernig það gagnast honum í rimmunni við Hamilton.

Kimi Räikkönen náði á verðlaunapall í þriðja sinn á árinu og í 80. sinn á ferlinum. Hefur hann þar með jafnað árangur brasilíska ökumannsins Ayron Senna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert