„Handónýtt“ og misheppnað fyrirkomulag

Frá tímatökunum í Melbourne í morgun. Nýtt fyrirkomulag á þeim …
Frá tímatökunum í Melbourne í morgun. Nýtt fyrirkomulag á þeim þykir hafa misheppnast gjörsamlega. mbl.is/afp

Hið nýja fyrirkomulag á tímatökunni í formúlu-1 var harðlega gagnrýnt að keppni lokinni í Melbourne í morgun. Ökumenn, liðsstjórar og málsmetandi menn sögðu það „handónýtt“ og misheppnað.

Tímatakan þótti í besta falli heldur aum og enginn mælti nýja fyrirkomulaginu bót, allir kröfðust þess að því yrði hætt þegar í stað. Hafði það sætt gagnrýni fyrirfram, meðal annars vegna stutts fyrirvara, en engan óraði að hörmungarnar yrðu eins og raun varð á í Albertsgarði í morgun.

Heimsmeistarinn frá 1996 sagði í umfjöllun sinni á Sky-sjónvarpsstöðinni, að svo fáránlega hafi leiksýningin þróast, að Lewis Hamilton hefði allt eins mátt veifa eigin köflótta flaggi þegar hann steig upp úr Mercedesbíl sínum.

Sjálfur var Hamilton ekki svo hrifinn af fyrirkomulaginu. „Við höfum sagt frá byrjun að þetta yrði ekki til góðs“

Ökumenn vöruðu við afleiðingunum

Sebastian Vettel hjá Ferrari sagði eftir að hafa hafnað í þriðja sæti: „Ég fæ ekki séð hvernig mönnum á að koma þetta á óvart, við sögðum FIA (Alþjóða akstursíþróttasambandinu) hvað myndi gerast. Og það gerðist sem við sögðum, en okkur var sagt að bíða og sjá hvernig þetta færi. Það höfum við nú séð og ég held þetta hafi ekki verið spennandi tímataka.“

Mercedesstjórinn Toto Wolff var fremstur í flokki í gagnrýni liðsstjóranna sem hvöttu til þess að fyrirkomulagið yrði upprætt þegar í stað. „Ég er venjulega ekki fyrir það að úthúða hlutunum í sjónvarpi, en fyrirkomulagið er handónýtt. Við verðum að setjast aftur niður og endurskoða það.

Það var alráðurinn Bernie Ecclestone sem er valdur að breytingunum sem var málamiðlun eftir að hann vildi snúa rásmarkinu við og láta tíu fremstu bíla leggja af stað í öfugri röð. Að sögn Niki Lauda stjórnarformanns Mercedesliðsins var það svo tæknistjóri FIA, Charlie Whiting, sem hannaði útfærsluna.

Ekki hugsað í þaula

„Það er augljóst að þegar við ákváðum að fara þessa leið hafði enginn hugsað málið í botn og hugsanlegar afleiðingar. Við þurfum að ganga rösklega til verks og breyta því fyrir næsta mót, í Barein,“ sagði Lauda.

Christian Horner liðsstjóri Red Bull sagðist telja að einróma samþykki allra liða fyrir breytingu fyrir Barein yrði auðfengið. 

Margar mínútur voru enn eftir af tímatökunni þegar ökumenn flestra liða höfðu yfirgefið bíla sína og byrjað að skunda af vettvangi.

Fernando Alonso hjá McLaren sagðist á því að nýja fyrirkomulagið væri í þágú toppliðanna. „Reglurnar eru pínulítið ósanngjarnar fyrir smærri liðin og þau sem eru ekki eins samkeppnisfær því við klárum dekkin okkar í fyrstu lotu og í annarri lotu fær maður ekki nema eitt tækifæri til að setja tíma.“

Eiga biðjast afsökunar

Fyrrnefndur Horner, liðsstjóri Red Bull, sagði að tilgangurinn með nýja fyrirkomulaginu hafi verið að stokka rásmarkið upp og gera keppnina í henni spennandi. „Við verðum að rétta upp hendur og segja að okkur hafi mistekist. Við eigum að biðja unnendur íþróttarinnar afsökunar og svona eiga tímatökur ekki að vera.“

Hann sagði að ákveðið hafi verið að gefa nýja fyrirkomulaginu tækifæri á að sanna sig. „Það virkaði ekki og nú verðum við að breyta fyrir næsta mót.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert