Lewis Hamilton hjá Mercedes klúðraði fyrri tímatilraun sinni í keppninni um ráspólinn í Barein. Þurfti hann því heldur betur að taka sig á í seinni tilrauninni. Það tókst - og svo um munaði. Skaust hann úr fjórða sæti í það fyrsta og settu brautarmet í leiðinni.
Hamilton vann ráspólinn með 77 þúsundustu úr sekúndu betri tíma en liðsfélagi hans Nico Rosberg, sem var á toppnum eftir fyrri atlöguna að tíma. Sebastian Vettel hjá Ferrari varð þriðji en rúmlega fjórum tíundu úr sekúndu á eftir Rosberg.
Í sætum fjögur til átta í lokalotunni urðu svo Kimi Räikkönen hjá Ferrari, Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Valtteri Bottas og Felipe Massa hjá Williams og Nico Hülkenberg hjá Force India.
Romain Grosjean hjá Haas átti bestan tíma þeirra sem sátu eftir í annarri lotu tímatökunnar, Hülkenberg skaust upp fyrir og hafði af honum úrslitasætið. Max Verstappen hjá Toro Rosso varð síðan tíundi og liðsfélagi hans Carlos Sainz ellefti.
Í sætum 12 til 15 urðu Stoffel Vandoorne hjá McLaren, Esteban Gutierrez hjá Haas, Jenson Button hjá McLaren og Daniil Kvyat hjá Red Bull.
Í fyrstu lotu féllu úr leik - og urðu þar með í sætum 16 til 22 - þeir Peter Wehrlein hjá Manor, Marcus Ericsson hjá Sauber, Sergio Perez hjá Force India, Kevin Magnussen á Renault, Jolyn Palmer há Renault, Rio Haryanto hjá Manor og Felipe Nasr hjá Sauber.