Lewis Hamilton keppir ekki í Mónakókappakstrinum um næstu helgi sé eitthvað að marka orðróm í þá veru sem nú flýgur fjöllum hærra á vettvangi Formúlu 1.
Ítalska íþróttadagblaðið Corriera dello Sport heldur því fram að grunsamlegt en ótilgreint atvik vegna nærveru Hamiltons á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi í síðustu viku gæti leitt til þess að hann keppi ekki í Mónakó.
Blaðið segir það tengjast atvikinu að Pascal Wehrelein hafi verið kvaddur til að sinna reynsluakstri fyrir Mercedes á miðvikudaginn var í Barcelona. Hafi hann verið kvaddur til starfa á síðustu stundu og nær fyrirvaralaust.
„Já, ég yrði tilbúinn,“ sagði Wehrlein við sjónvarpsstöðina Sky Italia eftir æfinguna er hann var spurður hvort hann teldi sig tilbúinn undir að keppa fyrir Mercedes. Hann játaði að það hefði komið sér á óvart að vera beðinn að sinna reynsluakstri. Hafi verið hringt í hann klukkan átta að kvöldi daginn áður og hafi hann orðið að nota Manor-merktan keppnishjálm sinn því hann hafði engan annan hjálm til brúks.
Corriere dello Sport getur ekki um hvað atvikið á næturklúbbnum Gotha Club snýst. Ítalska akstursíþróttaritið Autosprint fjallar einnig um það en ekki í einstökum atriðum. Báðir fjölmiðlarnir segja forsvarsmenn Mercedesliðsins gramir Hamilton því hann hafi hafnað því að sinna reynsluakstri í Barcelona.