Max Verstappen var kjörinn ökumaður dagsins í Malasíukappakstrinum í Sepang. Er það fimmta sinni sem hann er útnefndur maður mótsins.
Áður fékk Verstappen þessa viðurkenningu fyrir frammistöðu sína í Barcelona, Montreal, Austurríki og í Silverstone. Varð hann í öðru sæti í Sepang, næstur á eftir lisðfélaga sínum Daniel Ricciardo sem vann sinn fyrsta mótssigur á árinu. Var það jafnframt í fyrsta sinn í tæp þrjú ár sem bílar Red Bull klára keppni í tveimur fyrstu sætunum.
Verstappen var um tíma með forystu í kappakstrinum í dag en dróst síðan aftur úr Lewis Hamilton og Ricciardo, sem stoppuðu aðeins einu sinni í keppninni miðað við tvö stopp Verstappen.
Þeir liðsfélagarnir háðu gríðarlega jafna og tvísýna rimmu um forystu eftir að Hamilton var fallinn úr leik. Hlið við hlið smugu þeir gegnum hverja beygjuna af annarri uns Ricciardo náði yfirhöndinni og sigldi fram úr. Þegar svo sýndaröryggisbíll var kallaður út vegna eldsvoða í bíl Hamilton kallaði stjórnborð Red Bull bílana báða inn að bílskúr, og má segja að þar hafi keppni ökumannanna lokið.
Var þetta í fimmta sinn í dag sem Verstappen stendur á verðlaunapalli, en hæst ber frammistaða hans í Barcelona. Þar fór hann með sinn fyrsta og eina sigur í formúlu-1 af hólmi.
Menn mótsins hafa verið sem hér segir í ár og er röð viðkomandi í mark innan sviga:
Ástralía - Romain Grosjean (6.)
Barein - Romain Grosjean (5.)
Kínna - Daniil Kvyat (3.)
Rússland - Kevin Magnussen (7.)
Spánn - Max Verstappen (1.)
Mónakó - Sergio Perez (3.)
Kanada - Max Verstappen (4.)
Azerbaijdzan - Sergio Perez (3.)
Austurríki - Max Verstappen (2.)
Bretland - Max Verstappen (2.)
Búdapest - Kimi Räikkönen (6.)
Þýskaland - Daniel Ricciardo (2.)
Belgía - Lewis Hamilton (3.)
Ítalía - Nico Rosberg (1.)
Singapúr - Sebastian Vettel (5.)
Malasía - Max Verstappen (2.)