Ferrarimenn aftur efstir

Sebastian Vettel leggur af stað í aksturslotu.
Sebastian Vettel leggur af stað í aksturslotu. AFP

Ökumenn Ferrari, Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen, ók hraðast á lokaæfingunni fyrir tímatöku rússneska kappakstursins í Sotsjí, rétt eins og á seinni æfingu gærdagsins.

Valtteri Bottas og Lewis Hamilton hjá Mercedes urðu í þriðja og fjórða sæti og munaði aðeins 26 þúsundustu úr sekúndu á Finnunum tveimur, Räikkönen og Bottas. Á Mercedesmönnunum munaði svo 0,2 sekúndum.

Vettel ók hringinn hraðast á 1:34,001 mínútum sem er hraðasti hringur æfinganna þriggja í Sotsjí. Räikkönen fór á 1:34,338 og Bottas á 1:34,364. Besti  hringur Hamiltons var svo 1:34,542, en engir aðrir ökumenn komust undir 1:35 mínútur.

Í sætum fimm til tíu - í þessari röð - urðu Max Verstappe hjá Red Bull, Felipe Massa hjá Williams, Nico Hülkenberg hjá Renault, Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Carlos Sainz hjá Toro Rosso og Kevin Magnussen hjá Haas, sem var 2,6 sekúndum lengur með hringinn en Vettel, slíkur er munur á bílunum í Sotsjí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert